Sími 441 3600

Móttökuáætlun

Móttökuáætlun

Almenn móttökuáætlun Hörðuvallaskóla er tvíþætt. Áætlun um nemendur sem eru að hefja grunnskólagöngu og síðan áætlun um nemendur sem eru að skipta um grunnskóla eða hefja nám hér á landi.  Auk þess er móttökuáætlun fyrir nemendur með sérþarfir og nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku og eru nýkomnir til landsins.

 Áætlun um nemendur sem eru að hefja grunnskólagöngu

Áætlun er um nemendur sem eru að hefja grunnskólagöngu, í henni felst annarsvegar samstarf leik- og grunnskóla í hverfinu og hinsvegar vorskóli fyrir nemendur sem innritaðir eru í skólann fyrir komandi skólaár.

Samstarf leik- og grunnskóla

Að vori hittast aðstoðarskólastjóri og fulltrúar leikskóla í hverfinu og leggja drög að dagskrá komandi vetrar. Fyrikomulag heimsókna er þannig að ½ leikskólabarnanna kemur í grunnskólann meðan ½ grunnskólabarnanna fer í leikskólann. Samstarf er milli ákveðinna bekkja og ákveðinna leikskóla og mynda kennarar leik- og grunnskóla teymi sem vinna saman að skipulagi heimsókna.  Foreldrar fá kynningu hjá leikskólunum varðandi þetta samstarf.

Þrír fundir eru áætlaðir á skólaárinu fyrir samstarf kennara beggja stiga, einn í nóvember til undirbúnings, einn á miðri vorönn og einn í lok skólaárs þar sem lagt er mat á starf vetrarins.

Tími fyrir heimsóknir og samstarf milli skólastiganna er inni í skipulagi allra skólanna, 9:20-11:20 á þriðjudögum, hist þrisvar sinnum á haustönn;

 • í október á útikennslusvæði skólanna
 • í nóvember frjáls leikur inni og úti, tvær heimsóknir þannig að hvert barn fer eina heimsókn á leikskóla og fær eina heimsókn frá leikskólabörnum

Hist fjórum sinnum á vorönn, á sameiginlegum starfsdegi í nóvember funda kennarar beggja skólastiga og skipuleggja heimsóknir vorannar

 • í janúar
 • í febrúar
 • í mars
 • í apríl

Auk þessa eru nýttar uppákomur og sýningar sem við gætum boðið hvert öðru á, t.d. tónlistaratriði sem 1.árgangur æfir alltaf og sýnir að vori, ef eru atriði á sal eða sýningar sem leikskólabörnin undirbúa t.d. fyrir útskrift.

Annað samstarf er síðan:

Heimsóknir allra elstu deilda leikskólanna í grunnskólann þar sem aðstoðarskólastjóri tekur á móti hópunum og sýnir börnunum skólann og segir frá því helsta sem gert er í skólanum. Þessar heimsóknir eru í janúar, fyrir fyrsta samstarfsdag vorannar.

 • Eineltisdagurinn og vinna í tengslum við hann
 • Upplestur í leikskólunum þar sem 7.bekkingar undirbúa upplestrarkeppni með því að lesa fyrir leikskólabörnin
 • Jólaball leikskólanna í sal grunnskólans þar sem nemendur í 6.bekk aðstoða
 • Heimsókn í dægradvöl skólans og heimsókn forstöðumanns dægradvalar í leikskólana

Nemandi innritast í 1.árgang en er ekki í leikskóla innan hverfisins

Þeir nemendur sem innritast í 1. árgang og eru ekki í hverfisleikskólum fá boð um heimsókn með foreldrum/forráðamönnum sínum einn morgun í apríl, þar sem þeir fá kynningu á skólanum og líta við í heimsókn í um klukkustund  í 1. árgang.  Þessi heimsókn er um 2 klst. Foreldrar/forráðamenn fá boð um þessa heimsókn gegnum tölvupóst auk þess sem sendar eru upplýsingar um heimsóknina til leikskólanna þar sem börnin eru.

Nemandi innritast í 1.bekk að vori

Um mánaðamótin maí- júní er vorskóli tvo eftirmiðdaga í um tvær klukkustundir hvorn dag. Vorskólinn er á höndum grunnskólans og foreldra/forráðamanna, þeir dagar eru inni á skóladagatali. Foreldrar/forráðamenn fá boð um þennan viðburð gegnum tölvupóst.

Foreldrar/forráðamenn og nemendur í verðandi 1. árgangi eru boðaðir í skólann. Skólastjóri tekur á móti hópnum á sal skólans og flytur stutt ávarp. Verðandi umsjónarkennarar taka síðan við nemendum og fylgja þeim inn í kennslustofu þar sem nemendur og kennari dvelja við leik og störf meðan foreldrar/forráðamenn fá kynningu á sal skólans. Aðstoðarskólastjóri kynnir stefnu og sérkenni skólans. Deildarstjóri yngsta stigs og sérkennslu fer yfir mikilvæg atriði er varða þjónustu og starfið í skólanum almennt, s.s. kennslufyrirkomulag, mötuneyti skólans o.fl. og kynnir stoðkerfi skólans. Forstöðumaður Dægradvalar kynnir hvaða þjónusta væntanlegum nemendum stendur til boða.

Seinni daginn koma foreldrar/forráðamenn með börnin og skilja þau eftir í umsjá umsjónarkennara frá 14:30 til 16:00.

Áætlun um nemendur sem eru að skipta um skóla eða hefja nám hér á landi.

Þar er annarsvegar um að ræða nemendur sem innritast milli skólaára og síðan nemendur sem innritast eftir að skólaárið er hafið.

 Nemandi innritast í 2.-10.bekk við upphaf skólaárs

Nemendur eru boðaðir ásamt foreldrum/forráðamönnum í skólann um 20. ágúst. Skólastjóri tekur á móti hópnum og flytur stutt ávarp. Skólastjórnendur og umsjónarkennarar viðkomandi barna eru kynntir. Síðan fara nemendur ásamt foreldrum/forráðamönnum með umsjónarkennurum í skoðunarferð um skólann og fá upplýsingar um helstu atriði er varða skólastarfið.

Skólaboðunardagur er fyrsti nemendadagur skólaársins þá mæta allir nemendur skólans í 10-15 mínútna viðtal til umsjónarkennara ásamt foreldrum/forráðamönnum. Í því viðtali gefst nýjum nemendum og foreldrum/forráðamönnum þeirra færi á að fá nánari upplýsingar um skólastarfið. Helstu atriði sem kynnt eru

 • Stundarskrá nemandans
 • Íþróttir og sund
 • Skóladagatal
 • Innkaupalistar
 • Símanúmer skólans
 • Veikindi nemenda og innivera
 • Heimasíða og netföng kynnt
 • Mötuneyti og nestismál
 • Dægradvöl (fyrir nemendur í 1 -4 árgang)
 • Útskýrt hvert á að snúa sér ef nemanda líður illa í skólanum
 • Hlutverk foreldra/forráðamanna varðandi heimanám
 • Félagsstarf eldri nemenda
 • Samstarf heimilis og skóla
 • Notkun skólans á Mentor kynnt

 Í skólaboðunarviðtalinu gefst umsjónarkennara auk þess færi á að spyrja út í fyrra nám nemandans.

 Nemandi innritast eftir að skólaárið er hafið

Þegar nemandi kemur nýr inn í skólann eftir að skólaárið er hafið er hann boðaður í heimsókn ásamt foreldrum/forráðamönnum. Deildarstjóri þess stigs sem nemandinn er að fara á tekur á móti þeim, fer yfir helstu atriði í starfi skólans, fer í skoðunarferð um skólann og kynnir væntanlegan umsjónarkennara nemandans. Umsjónarkennari og foreldrar/forráðamenn finna síðan tíma til að funda saman og miðla upplýsingum (sjá lista hér að ofan).

 Áætlun um móttöku nemenda með annað móðurmál en íslensku

Þegar óskað er eftir skólavist fyrir einstakling sem hefur annað móðurmál en íslensku og er nýkominn til Íslands er viðkomandi vísað á Álfhólsskóla í Kópavogi, fyrstu mánuðina á meðan nemandinn nær grunntökum á íslensku.

Í Hörðuvallaskóla tekur deildarstjóri þeirrar deildar sem nemandi innritast í á móti foreldrum/forráðamönnum ásamt túlk ef þörf er á. Deildarstjóri ákveður því næst þann hóp sem nemandi fer í og umsjónarkennara. Í innritunarviðtalinu er farið yfir eftirfarandi þætti:

 • Stundarskrá nemandans
 • Íþróttir og sund
 • Skóladagatal
 • Innkaupalistar útskýrðir
 • Símanúmer skólans
 • Veikindi nemenda og innvera
 • Heimasíða og netföng kynnt
 • Mötuneyti og nestismál
 • Dægradvöl (fyrir nemendur í 1 -4 árgang)
 • Ákveðið hvenær nemandi byrjar í skólanum
 • Útskýrt hvert á að snúa sér ef nemanda líður illa í skólanum
 • Hlutverk foreldra/forráðamanna varðandi heimanám
 • Möguleikar á undanþágu í ákveðnum fögum útskýrðir
 • Möguleikar á undanþágu í samræmdum prófum útskýrð
 • Félagsstarf eldri nemenda
 • Samstarf heimilis og skóla
 • Mentor kynntur

Í móttökuviðtalinu sitja foreldrar/forráðamenn, nemandi, túlkur (ef þörf er á) skólastjórandi/deildarstjóri og umsjónarkennari. 

 Einstaklingsáætlun er gerð, ef þurfa þykir, í samvinnu við sérkennara.

Móttökuáætlun nemenda með sérþarfir

Móttökuáætlun nemenda með sérþarfir er í höndum þess deildarstjóra og/eða umsjónarmanns sérkennslu, sem nemandi innritast hjá. Nemandi er skráður í almennan bekk og ber umsjónarkennari ábyrgð á samstarfi við sérkennara, þroskaþjálfa og foreldra/forráðamenn. Umsjónarkennari, sérkennari og þroskaþjálfi bera sameiginlega ábyrgð á gerð einstaklingsáætlana þar sem tekið er mið af greiningum/þroskamati viðkomandi nemenda, óskum foreldra og mati starfsmanna á hverjum tíma. Í einstaklingsnámskrá skal tiltekið um námsmarkmið, námsaðstæður, námsefni, námsmat og aðrar aðstæður í skólanum s.s. frímínútur og matartíma. Kennslan getur farið fram með eða án stuðnings í almennum bekk, sérkennslu í litlum hópi eða einstaklingskennslu utan bekkjar. Námsmat er til þess að fylgjast með hvernig nemanda tekst að mæta markmiðum einstaklingsnámskrár og örva nemendur til framfara. Vitnisburður er í orðum og umsögn fylgir með til hvatningar og stuðnings. Nemandur með sérþarfir fá vitnisburð birtan með svipuðum hætti og aðrir nemendur skólans.

 

Notkun hjálpartækja

Ef nemandi þarf á hjálpartækjum að halda við náms sitt verður leitað allra leiða til að hafa þau tiltæk til náms. Hér getur verið um að ræða húsbúnað, tölvubúnað, forrit, öpp og svo framvegis.

 

Aðbúnaður og aðstaða

Aðstaða og aðbúnaður til sérkennslu er í samræmi við lög og reglugerðir. Leitast er við að hafa fjölbreytt úrval námsgagna og sem mesta breidd í kennsluháttum.

 

Samstarf við aðila utan skólans

Samstarf er við félagsþjónustu Kópavogs, Greiningar og ráðgjafastöð ríksins, Barna- og unglingadeild, Þroska- og hegðunarmiðstöð og aðra þá sem vinna með viðkomandi nemendur. Umsjónarkennari og deildarstjóri sitja skilafundi og samstarfsfundi eftir þörfum. Þroskaþjálfi/sérkennari tekur að sér formennsku í þeim teymum sem mynduð eru vegna nemenda með sérþarfir. Samstarf við foreldra utan teyma eru hefðubundin foreldraviðtöl, samskipti í gegnum mentor, með tölvupósti auk samstarfsfunda eftir þörfumog/eða áætlunum sem gerðar eru.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica