Eineltisáætlun

Stefna skólans
Í Hörðuvallaskóla er lögð áhersla á jákvæð og uppbyggjandi samskipti. Leitað verður allra ráða til að fyrirbyggja einelti og ofbeldi og til að leysa þau mál sem upp koma á farsælan hátt. Skólinn á að vera öruggur vinnustaður þar sem starfið mótast af virðingu og umhyggju. Til að ná þessum markmiðum þurfa allir aðilar skólasamfélagsins að hafa sameiginlega sýn og skilgreint hlutverk í markvissri vinnu gegn einelti.  

Forvarnir til að koma í veg fyrir einelti
Mikilvægt er að börn séu alin upp við jákvæða athygli. Í Hörðuvallaskóla er stefnt að því að nemendur læri að setja sig í spor annarra, sýna umburðarlyndi og bera virðingu fyrir öðrum.  

Hvað er einelti?
Einelti er endurtekið ofbeldi, líkamlegt eða andlegt, þar sem einn eða fleiri níðast á öðrum, sem á erfitt með að verjast. Einelti getur birst í ýmsum myndum. Tilviljanakennd stríðni, átök og ágreiningur milli jafningja telst ekki til eineltis.

Einelti getur verið:

 • Líkamlegt: barsmíðar, spörk, hrindingar eða skemmdarverk
 • Munnlegt: uppnefni, niðrandi athugasemdir og endurtekin stríðni
 • Skriflegt: tölvuskeyti, sms–skilaboð, bloggsíðuskrif, krot og bréfasendingar
 • Óbeint: baktal, útskúfun eða útilokun úr félagahópi
 • Efnislegt: eigum barnsins stolið eða þær eyðilagðar
 • Andlegt: þegar barnið er þvingað til að gera eitthvað sem stríðir algjörlega gegn réttlætiskennd þess og sjálfsvirðingu.

Einelti er ofbeldi sem getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér bæði fyrir þolanda og geranda. Andlegt ofbeldi, eða áreiti, hefur oft verri afleiðingar í för með sér en líkamlegt. Einelti hefur iðulega alvarleg áhrif á nám, líðan og félagsþroska einstaklinga.  

Ferli eineltismála
Ef foreldri/forráðamann grunar að barn þeirra verði fyrir einelti eða leggi aðra í einelti skulu þeir þegar í stað hafa samband við umsjónarkennara og eða skólastjórn.

Ef starfsmann skólans grunar að nemandi sé lagður í einelti eða taki þátt í að leggja aðra í einelti ber honum að láta umsjónarkennara vita strax, þannig að hægt sé að taka á málunum.

Eineltismál eru ólík og því verður að miða viðbrögð við hvert einstakt tilfelli. Nauðsynlegt er að bregðast strax við og setja af stað ákveðið vinnuferli.  

Vinnuferli skólans skiptist  í könnunarferli, aðgerðaferli og eftirfylgni. 

Könnunarferli – Grunur um einelti 
Ef upp kemur grunur um einelti tilkynnist það tafarlaust til umsjónarkennara þolenda og gerenda. Umsjónarkennari tilkynnir grun um einelti til eineltisteymis og stjórnanda. Umsjónarkennari aflar strax upplýsinga um málið, Könnunarferli er sett af stað. Umsjónarkennari setur aðra kennara þolandans og starfsfólk inn í málið. Umsjónarkennarar leggja tengslakönnun fyrir bekkinn og fjallað almennt um einelti t.d. í lífsleiknitímum. Reynt er að finna út hvar eineltið á sér stað, hvenær, hvernig og hverjir eru þátttakendur.

Umsjónarkennari leitar upplýsinga hjá eftirtöldum aðilum:

 • kennurum og öðru starfsfólki skólans
 • forráðamönnum þolenda
 • forráðamönnum gerenda  

Umsjónarkennari leitar ráðgjafar hjá eineltisteymi skólans, samstarfsfólki og/eða öðru fagfólki. Ef í ljós kemur að um einelti er að ræða er unnið áfram með málið eftir gátlistum skólans.

Umsjónarkennari gerir foreldrum/forráðamönnum þolanda grein fyrir málinu, veitir upplýsingar um úrræði sem þeim stendur til boða skv. eðli málsins, t.d. viðtöl við námsráðgjafa og/eða sálfræðing skólans.

Umsjónarkennarar ræða við gerendur og foreldra/forráðamenn þeirra.

Umsjónarkennarar taka einstaklings- og hópviðtöl við nemendur.

Mikilvægt er að umsjónarkennarar skrái allar aðgerðir og gæti trúnaðar í meðferð málsins.  

Eftirfylgni 
Eftir að eineltismál er komið í réttan farveg er því fylgt vel eftir í samvinnu við eineltisteymi skólans.

Þegar málin eru komin í réttan farveg og aðilar treysta sér til að tala saman mæta þolendur og gerendur saman á fund ásamt umsjónarkennurum og stjórnanda. Þar fara fram umræður um líðan og hegðun, hrós og styrkingu til að efla samstöðu nemendanna.

Þegar niðurstöður liggja fyrir úr athuguninni ræðir umsjónarkennari við þolendur og gerendur um stöðu máls og líðan.

Ef niðurstöður athugunar  sýna að einelti er enn í gangi, þá er tafarlaust gripið til frekari aðgerða.  

Frekari aðgerðir

Ef eineltismál er enn í gangi eftir athugun er gripið til frekari aðgerða.

Umsjónarkennarar ásamt eineltisteymi vísa málinu til nemendaverndarráðs. Nemendaverndarráð ákveður næstu skref í málinu varðandi framhaldið, s.s. hvort þurfi aðkomu skólasálfræðings eða námsráðgjafa að málinu.

Þolendur og gerendur eru boðaðir á fund ásamt forráðamönnum sínum í sitthvoru lagi. Umsjónarkennarar og stjórnandi sitja þann fund. Rætt er um alvarleika málsins og hvað skuli gert til að leysa málið á þessu stigi. 

Ef þolendur treysta sér til að hitta gerendur er boðað til sameiginlegs fundar ásamt forráðamönnum þeirra.

Næstu vikur á eftir er fylgst með framgangi mála. Nemendaverndarráð heldur utanum málið ásamt eineltisteymi, umsjónarkennurum og stjórnanda. 

Ef þörf er á eru þolendur og gerendur boðaðir aftur í viðtöl ásamt forráðamönnum þar sem þeim er gerð grein fyrir stöðu mála.

Ef ekki tekst að beina málum í rétta átt er því vísað til velferðarsviðs á næstu dögum.  

Mikilvæg atriði í tengslum við eineltismál: 
Haldið er utan um öll málsatvik, mat á aðstæðum og framvindu.

Fyllsta trúnaðar er gætt við meðferð eineltismála.

Tveir aðilar taka viðtal við gerendur. Það undirstrikar alvöru málsins og kemur jafnframt í veg fyrir misskilning.

Mikilvægt er að unnið sé í eineltismálum í góðu samstarfi við nemendur og forráðamenn.

Í öllum tilvikum eru gefin skýr skilaboð um að einelti er ekki liðið.

 

Til upplýsinga fyrir foreldra:

Foreldrar – er barn ykkar lagt í einelti?

Mögulegar vísbendingar:

 • Barnið virðist einangrað eða einmana
 • Einbeitingarörðugleikar, barnið hættir að sinna námi og námsstaða versnar
 • Barnið neitar að fara í skólann eða hræðist að fara eitt í og úr skóla, biður um fylgd og/eða fer aðra leið
 • Barnið skrópar og/eða kemur ítrekað of seint 
 • Breytingar á skapi, tíður grátur, viðkvæmni
 • Árásargirni og erfið hegðun
 • Lítið sjálfstraust, hræðsla, kvíði, svefntruflanir
 • Breyttar matarvenjur, lystarleysi eða ofát
 • Líkamlegar kvartanir
 • Áverkar, rifin föt og/eða skemmdar eigur
 • Barnið týnir peningum og/eða öðrum eigum
 • Barnið forðast ákveðnar aðstæður í skólanum t.d. leikfimi og sund
 • Barnið neitar að segja frá hvað amar að.

 

Hvað getið þið gert? 
Rætt við og hlustað á barnið segja frá starfinu í skólanum og ferðum til og frá skóla og skoðað snjalltæki barnsins.

Haft samband við umsjónarkennara, námsráðgjafa, stjórnendur skólans og/eða forráðamenn gerenda

Brugðist við vanda barnsins með þolinmæði og umhyggju

Látið barnið finna að það á ekki sök á eineltinu.  

Foreldrar - er barn ykkar gerandi?

Mögulegar vísbendingar:

 • Barnið er árásargjarnt og sýnir yfirgang
 • Barnið uppnefnir, stríðir og hótar
 • Barnið stjórnar vinum og útilokar einhvern úr vinahópnum
 • Barnið er ógnandi í samskiptum
 • Barnið talar niðrandi um aðra.  

Hvað getið þið gert? 
Gefið barninu skýr skilaboð um að einelti er alvarlegt mál og slík hegðun verði ekki liðin

Fylgst vel með barninu og lagt ykkur fram um að kynnast vinum þess og hvernig það ver frítíma sínum

Haft samband við skólann og fengið aðstoð við að bæta og breyta hegðun barnsins.  

Foreldrar - fylgist vel með samskiptum barna í raunheimum og á netinu.

Einelti viðgengst oft vegna þess að nemendur vilja ekki vera stimplaðir sem klöguskjóður. Ræðið við börnin ykkar um muninn á því að klaga og segja frá. Með því að segja frá er hugsanlega verið að koma öðrum til aðstoðar sem líður illa.

Foreldrar eru bestu kennarar barna sinna og grunnur að góðum samskiptum er lagður á unga aldri. Foreldrar eru hvattir til að ræða um líðan og samskipti við börnin. Mikilvægt er að hafa strax samband við umsjónarkennara til að ræða áhyggjur af líðan barnsins í skólanum eða ef grunur vaknar um að einelti sé í gangi í félagahópnum.

Gott upplýsingaflæði milli heimilis og skóla er forsenda þess að vel gangi að sporna við einelti.