Samstarf við aðila utan skólans

Samstarf við leikskóla

Að vori hittast deildarstjóri, umsjónarkennarar 1. árgangs og fulltrúar leikskóla í hverfinu og leggja drög að dagskrá komandi vetrar. Fyrirkomulag heimsókna er þannig að helmingur leikskólabarnanna kemur í grunnskólann meðan helmingur grunnskólabarnanna fer í leikskólann. Samstarf er milli ákveðinna bekkja og ákveðinna leikskóla og mynda kennarar leik- og grunnskóla teymi sem vinna saman að skipulagi heimsókna. Foreldrar fá kynningu hjá leikskólunum varðandi þetta samstarf. Þrír fundir eru áætlaðir á skólaárinu fyrir samstarf kennara beggja stiga, einn í nóvember til undirbúnings, einn á miðri vorönn og einn í lok skólaárs þar sem lagt er mat á starf vetrarins.

  • Á haustönn er lögð áhersla á að kennarar beggja skólastiga eigi faglega samræðu og kynni sér störf hins skólastigsins.
  • Hist er fjórum sinnum á vorönn með nemendahópa
  • Auk þessa eru nýttar uppákomur og sýningar sem við gætum boðið hvert öðru á, t.d. tónlistaratriði sem 1. árgangur æfir alltaf og sýnir að vori, ef eru atriði á sal eða sýningar sem leikskólabörnin undirbúa t.d. fyrir útskrift.

Annað samstarf er síðan:

  • Heimsóknir allra elstu deilda leikskólanna í grunnskólann þar sem aðstoðarskólastjóri tekur á móti hópunum og sýnir börnunum skólann og segir frá því helsta sem gert er í skólanum. Þessar heimsóknir eru skipulagðar á vorönninni í samráði við leikskólana.
  • Eineltisdagurinn og vinna í tengslum við hann.
  • Upplestur í leikskólunum þar sem 7.bekkingar undirbúa upplestrarkeppni með því að lesa fyrir leikskólabörnin.
  • Jólaball leikskólanna í sal grunnskólans þar sem nemendur í 6.bekk aðstoða.
  • Heimsókn í frístund skólans og heimsókn forstöðumanns frístundar í leikskólana.

Samstarf við tónlistarskóla og skólahljómsveit

Hörðuvallaskóli er í samstarfi við Skólahljómsveit Kópavogs, Tónsali og Tónlistarskóla Kópavogs. Aðstoðarskólastjóri og skrifstofustjóri eru í samstarfi við tónlistarskólana og skólahljómsveitina. Metin er þörf fyrir fjölda stunda og athugað hvaða möguleika skólinn hefur á að hýsa starfið. Síðan er sett upp miðlægt skjal þar sem nemendur eru skráðir inn. Reynt er að velja tíma sem nemendur geta unnið upp í samstarfi við foreldra. Séu nemendur teknir út úr annarri kennslu er það á ábyrgð foreldra að gæta þess að vinna upp efni sem nemandinn missir af.

Samstarf við ýmsa aðila í nærsamfélaginu

Í Hörðuvallaskóla er vilji til að veita þeim aðilum sem sinna tómstundum barna eftir að skóladegi lýkur tækifæri til að koma starfi sínu á framfæri og eftir atvikum að lána rými í skólanum til tómstundanna. Aðstoðarskólastjóri er tengiliður skólans varðandi þetta. Auglýsingar frá hinum ýmsu félögum eru áframsendar á formann foreldrafélags Hörðuvallaskóla sem kemur þeim á framfæri á netmiðlum til annarra foreldra. Heimilt er að láta dreifa til nemenda tilkynningum/auglýsingum um tónlistarnám, myndlistarnám, dansnámskeið, tölvunámskeið, leiklistarnámskeið og íþróttastarfsemi. Eftir að skóladegi lýkur er þorri nemenda á yngsta stigi í lengdri viðveru í skólanum, Hörðuheimum. Samstarf er við íþróttafélögin þar sem börnin fara á æfingar í HK, Breiðablik og Gerplu. Börnin fara gangandi í HK en annars í rútum. Forstöðumaður Hörðuheima sér um þetta samstarf fyrir hönd skólans.