Námsmat

Námsmat felst annarsvegar í því að gera nemendum ljós markmið námsins og hvaða kröfur eru gerðar til þeirra sem og að veita þeim endurgjöf sem hvetur þá til að nýta hæfileika sína og styrk til fullnustu, leiðsagnarmat. Hins vegar felst námsmatið í því að meta stöðu nemenda í lok ákveðins tímabils, lokamat. Námsmat Hörðuvallaskóla fer fram jafnt og þétt á námstíma nemenda og er órjúfanlegur hluti náms og kennslu. Í skólanum eru allir þættir námsins metnir miðað við hæfniviðmið Aðalnámskrár, bæði á námssviðunum átta og í lykilhæfninni. Lögð er áhersla á að hafa matsaðferðir fjölbreyttar og að þær hæfi þeim viðfangsefnum sem verið er að meta. Eins eru þau verkefni sem valin eru til mats fjölbreytt og í samræmi við kennslutilhögun. Símat, sjálfsmat og jafningjamat eru einnig vinnubrögð í námsmati sem geta flokkast undir leiðsagnarmat.

Leiðsagnarmat.

Í Aðalnámskrá grunnskóla er hvatt til þess að leiðsagnarmat sé hluti námsmats skóla. Leiðsagnarmat fer fram í daglegu starfi í kennslustundum og hefur það markmið að styðja markvisst við nemendur til að gera þeim kleift að ná enn betri árangri í námi sínu. Leiðsagnarmat er í raun ákveðin námsmenning sem sköpuð er í kennslustofunni með ákveðnu skipulagi þar sem markviss og gagnvirk samskipti um námið fara fram. Eitt af markmiðum leiðsagnarmats er að gera nemendur meðvitaðri og virkari í námi sínu. Í kennslustofum þar sem þessi námsmenning ríkir:

  • eru nemendum ljós markmið kennslustundar/verkefnis
  • eru viðmið um árangur kennslustundar/verkefnis skilgreind (unnið í samstarfi við nemendur)
  • er nemendum gefin markviss endurgjöf sem tekur mið af þeim viðmiðum sem sett voru með kennslustund/verkefni. Endurgjöfin er gefin þegar nemandi er viðstaddur og hann þarf að fá tækifæri til að vinna úr henni strax svo hún skili árangri
  • fá nemendur tækifæri til að ræða um nám sitt, hvert við annað og við kennarann
  • er litið á mistök sem lærdómstækifæri

Leiðsagnarmat felur aldrei í sér dóm heldur nýtist nemendum sem varða á leið sinni í lærdómsferlinu, þrautseigju er gert hærra undir höfði en því að vinna hratt og undir getu. Í gegnum leiðsagnarmat fá nemendur jafnt og þétt vitnisburð um eigið nám út frá viðmiðum um árangur sem þeir taka þátt í að setja.

Símat

Símat er mat sem fer fram jafnt og þétt, það vísar til tíðni, þ.e. hversu oft er metið. Símat sem ekki hefur markviss leiðbeinandi áhrif fellur ekki undir leiðsagnarmat. Símat getur fallið undið lokamat ef því er safnað saman í þeim tilgangi að láta meðaltal allra skipta sem metið var enda sem lokamat.

Sjálfsmat

Sjálfsmat er mat þar sem nemandinn metur sjálfur eigin frammistöðu. Ef sjálfsmat byggir á skýrum viðmiðum um árangur og nemendur fá tækifæri til að vinna úr því þá getur það verið hluti af leiðsagnarmati. Sjálfsmat getur einnig verið hluti af lokamati.

Jafningjamat

Jafningjamat er mat þar sem nemendur meta verk hvers annars. Ef jafningjamat byggir á skýrum viðmiðum um árangur og nemendur fá tækifæri til að vinna úr því þá getur það verið hluti af leiðsagnarmati. Jafningjamat getur einnig verið hluti af lokamati.

Lokamat

Lokamat er gert í lok ákveðins tímabils og hefur það markmið að meta stöðu nemenda á þeim tímapunkti sem það fer fram. Matsaðferðir lokamats geta verið af ýmsum toga t.d.:

  • nemandi velur ákveðið verkefni sem hann leggur fram til lokamats
  • kennari leggur fyrir ákveðið verkefni sem nemendur vita að verður nýtt til lokamats
  • kennari leggur fyrir próf í ákveðnum þáttum í lok tímabils
  • ritgerð eða annað stórt verkefni sem nemandinn hefur unnið jafnt og þétt yfir veturinn er lagt fram til lokamats (í ferlinu hefur leiðsagnarmat átt sér stað, jafningjamat og jafnvel sjálfsmat).

Lokamat er ekki lagt á alla vinnu nemenda heldur eru ákveðnir þættir valdir til lokamats miðað við viðfangsefni og stöðu nemenda hverju sinni.

Upplýsingar um mat

Námsmat er almennt byggt á hæfniviðmiðum aðalnámskrár og lokamat tekur mið af þeim. Nemendur í 1.-4. bekk eru metnir með hliðsjón af hæfniviðmiðum við lok 4. bekkjar og nemendur í 5.-7. bekk eru metnir með hliðsjón af hæfniviðmiðum við lok 7. bekkjar o Lokamat nemenda í 7. bekk byggir á hæfnikortum nemenda. Mati á námsframvindu með hliðsjón af hæfniviðmiðum er safnað saman á svokölluð hæfnikort nemenda sem eru aðgengileg í Mentor. Nemendur og foreldrar eru upplýstir sérstaklega um stöðu námsmats í lok hverrar annar ásamt upplýsingum um frammistöðu nemenda á tímabilinu.