Foreldrar

Ein af lykilstoðum skólasamfélagsins er virkt foreldrasamstarf. Áherslur á samstarf heimila og skóla eru augljósar í lögum um grunnskóla (2008) og aðalnámskrá grunnskóla (2011) en þar er litið á foreldra sem samstarfsmenn um hvert einstakt barn, nemendahópinn og skólann sem heild. Farvegur fyrir samskipti foreldra og kennara þar sem velferð nemenda er höfð að leiðarljósi þarf að vera skýr en um leið þarf að gæta þess að samskiptin hafi ekki truflandi áhrif á nám og kennslu. 

 

Tölvupóstur

 • Tölvupóstar eru eingöngu notaðir til að senda upplýsingar eða spyrjast fyrir um hagnýt mál. Til að ræða viðkvæm, persónuleg mál skal biðja um fund eða hringja.
 • Ekki er gert ráð fyrir að kennarar opni tölvupóst í kennslustundum, slíkt er gert eftir kennslu á daginn.
 • Kennarar svara ekki tölvupósti á kvöldin og um helgar nema brýna nauðsyn beri til.
 • Kennarar ákveða sjálfir hvort þeir taka á móti vinnupósti í sinn persónulega farsíma.

Facebook og aðrir samskiptamiðlar

 • Almenna reglan er sú að starfsmenn skólans og foreldrar og/eða nemendur eru ekki vinir á Facebook.
 • Kennarar skólans sem stofna sérstakan Facebook hóp eða aðra sambærilega samskiptahópa fyrir foreldra skilgreina í upphafi tilgang hópsins/síðunnar, hvað á heima þar og hvað ekki. Dæmi: Tilgangurinn með þessum hóp/síðu er að deila hagnýtum upplýsingum um nám og félagsstarf nemendanna í bekknum/árganginum. Hér er deilt upplýsinum og fyrirspurnum um heimanám, upplýsingum og fyrirspurnum um verkefni sem nemendur eru að vinna með í skólanum m.a. ljósmyndum, upplýsingum og fyrirspurnum um kennsluaðferðir. Hér birtast einnig upplýsingar frá bekkjarfulltrúum og frá foreldrafélaginu. Undir engum kringumstæðum er hér fjallað um málefni einstaklinga, hvorki nemenda, foreldra né starfsmanna skólans. Að öllu jöfnu er ekki gert ráð fyrir að kennarar svari einkaskilaboðum frá foreldrum eða nemendum á Facebook.
 • Reglur gilda um hvenær, hvar og hvaða ljósmyndir skólinn birtir af nemendum, sjá: Viðmið um myndatökur og myndbirtingar í skóla- og frístundastarfi https://www.kopavogur.is/static/files/Log-og-reglur/reglur_menntasvid/vidmid-myndbirting-aheimasidum.pdf

Sími

 • Kennarar svara ekki í farsíma eða taka við skilaboðum í síma meðan á kennslu stendur.
 • Ef málið þolir ekki bið er hægt að óska eftir símtali eða fundi með milligöngu ritara. Ritari tekur niður skilaboð og kennari hringir þegar hann er laus.
 • Nemendur eiga ekki að vera með símtækin sín uppi við og ef þeir þurfa að hafa samband heim fer það í gegnum skrifstofu skólans.
 • Foreldrar hafa samband við skrifstofu skólans ef þeir þurfa að ná í barnið sitt á skólatíma.

Heimsóknir foreldra í skólastofur 

 • Hvatt er til þess að foreldrar kynnist daglegu starfi barna sinna í skólanum. Heimsóknir í skólastofur eru skipulagðar í samráði og með samþykki viðkomandi kennara. Ef foreldrar óska eftir heimsókn í skólastofu rita þeir undir trúnaðaryfirlýsingu hjá ritara sem miða að persónuverndarlögum þar þar sem því er heitið að gæta fyllsta trúnaðar um skólastarf og málefni einstaklinga er varða skólastarfið.

Upplýsingar frá skólanum

 • Samráðs- og upplýsingafundir eru haldnir í 1., 5. og 8. árgöngum á hverju skólaári. En í öðrum árgöngum ef þurfa þykir.
 • Umsjónarkennari sendir foreldrum reglulega helstu upplýsingar um bekkjarstarfið og það sem framundan er í bekknum/hópnum/árganginum

 

Mennta- og menningamálaráðuneytið gaf út reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélags í grunnskólum árið 2018 og þar er meðal annars fjallað um ábyrgð, réttindi og skyldur foreldra sem sjá má hér að neðan. En reglugerðina í heild sinni má nálgast hér

5. gr.

Ábyrgð, réttindi og skyldur foreldra.

Foreldrar skólaskylds barns bera ábyrgð á að það innritist í skóla þegar það kemst á skólaskyldualdur og sæki skóla.

Foreldrar bera ábyrgð á uppeldi barna sinna. Þannig bera foreldrar einnig ásamt börnum sínum ábyrgð á hegðun þeirra og framkomu gagnvart samnemendum og starfsfólki skóla og eiga að bregðast við afleiðingum hegðunar barna sinna í skóla.

Foreldrar gæta hagsmuna barna sinna og ber að stuðla að því að þau stundi nám sitt. Þeim ber að fylgjast með námsframvindu í samvinnu við þau og kennara. Foreldrar skulu fá tækifæri til að taka þátt í námi barna sinna, sem og í skólastarfinu almennt í samráði við umsjónarkennara og skólastjórnendur.

Foreldrum ber að greina skólanum frá þeim þáttum sem kunna að hafa áhrif á náms­framvindu, ástundun og hegðun, s.s. um vanlíðan barna sinna og áföll sem gætu haft áhrif á skólagönguna, sem og þegar breytingar verða á högum þeirra og aðstæðum.

Foreldrum er skylt að vinna að lausn mála í samstarfi við skóla, sérfræðiþjónustu og fræðslu­yfirvöld sveitarfélaga þegar misbrestur verður á hegðun og framkomu barna þeirra.

Foreldrum ber ásamt barni að taka þátt í meðferð máls, en telji foreldrar eða stjórnendur skóla að ekki ríki trúnaður eða traust í tengslum við umfjöllun um mál barns er æskilegt að leita aðstoðar óvilhalls aðila.