Stefna skólans

Skólaárið 2018-2019 sótti hluti stjórnendahóps skólans námskeið á vegum Kópavogsbæjar um faglega forystu. Í kjölfar þeirrar vinnu bættust við leiðarljós skólans:

Í Hörðuvallaskóla einkennist nám og kennsla af áhugaverðum og markvissum verkefnum. Nemendur hafa tækifæri til að hafa áhrif á nám sitt og eiga gagnrýna samræðu um það. Eru meðvitaðir um hvert er stefnt og fá markvissa endurgjöf frá kennurum á leiðinni.

Á því námskeiði varð einnig til þróunaráætlun til þriggja ára með áherslu á tækifæri allra, nemenda og starfsfólks til að vaxa. Megináhersla er á fjóra þætti, námsmenningu, námsaðlögun, námsmat og upplýsingaflæði. Öll þrjú árin stefnum við að því að kennsla verði nemandamiðaðri.

 • Námsmenning - snýst um það andrúmsloft sem við sköpun í kennslustofunni gagnvart námi og er t.d. sett saman úr  skipulagi, samræðum, endurgjöf og viðhorfum
 • Námsmat – snýst um  það hvernig við metum árangur af þeirri vinnu sem nemendur og kennarar leggja á sig.
 • Upplýsingagjöf – snýst um það hvernig við upplýsum foreldra um það starf sem fram fer í skólanum og stöðu barna þeirra
 • Námsaðlögun – snýst um  það hvernig við komum til móts við ólíka einstaklinga í nemendahópi.

Skólaárið 2016-2017 fór fram endurskoðun á stefnu Hörðuvallaskóla og var þá mótuð eftirfarandi stefna. Vinna við framvæmd stefnunnar hefst haustið 2017 en gera þarf ráð fyrir að nokkur ári taki að koma henni að fullu í framkvæmd.  Í starfsáætlunum skólans á hverjum tíma eru tiltekin áhersluatriði sem miða að framgangi stefnunnar ár hvert. 

Einkunnarorð: Það er gaman í skólanum!

Framtíðarsýn:
Hörðuvallaskóli er einn stærsti grunnskóli landsins og jafnframt einn sá öflugasti. Nemendur skólans fá tækifæri til að rækta styrkleika sína og við útskrifum ábyrga, sjálfstæða, sjálfsörugga og samskiptahæfa nemendur.  Skólinn er eftirsóttur vinnustaður fyrir nemendur og starfsfólk og nýtur álits fyrir framsækið og þróttmikið starf. Samskipti innan skólans eru uppbyggileg og einkennast af gagnkvæmri virðingu. 
Stefnt er að því að árið 2023 verði eftirfarandi stefna skólans að fullu komin til framkvæmda. 

Það er gaman að læra í Hörðuvallaskóla:

Nemendur fást við verkefni sem eru krefjandi, fjölbreytileg og taka mið af margvíslegum styrkleikum einstaklinganna.  Sérstök áhersla er lögð á lestur, stærðfræði og ritun sem undirstöðu fyrir annað nám.

 • Áhersla er á lestur og læsi í víðum skilningi. Lestrarstundir eru daglega á öllum stigum. Allir nemendur lesa heima á hverjum degi með aðstoð og aðhaldi frá foreldrum. Byrjendalæsi er ráðandi kennsluaðferð á yngra stigi og Læsi til náms í eldri bekkjum. Fylgst er með framvindu í lestrarnámi nemenda með reglulegu mati og stuðningi þar sem með þarf samkvæmt læsisstefnu skólans. 
 • Áhersla er á stærðfræðinám.  Þemaverkefni í stærðfræði eru nýtt til að glæða stærðfræðina lífi og tengja hana við daglegt líf. Lögð er áhersla á að skapa og viðhalda jákvæðu viðhorfi og áhuga nemenda til stærðfræðinnar m.a. með hlutbundinni vinnu og með því að gera nemendur meðvitaða um áhrif stærðfræðinnar á daglegt líf og tengsl við umhverfið.
 • Áhersla er á ritun og tjáningu í breiðum skilningi. Nemendur eru þjálfaðir í að koma frá sér efni í rituðu máli, töluðu máli, með leikrænni tjáningu og með margmiðlun.
 • Áhersla er á nýtingu upplýsingatækni í námi og kennslu enda er hún eðlilegur þáttur af skólastarfinu.  Forritun er viðurkenndur þáttur í námi innan skólans.
 • Áhersla er á að nemendur taki virkan þátt í áætlanagerð og markmiðssetningu í náminu og hafi áhrif á val viðfangsefna. Upplýsingatækni er markvisst nýtt til aðlögunar náms að hverjum og einum.
 • Námsmat einkennist af leiðsagnarmati og allt námsmat miðast við að hvetja og leiðbeina nemendum. 
 • Áhersla er á sköpun með öflugri list- og verkgreinakennslu og í öllu námi nemenda. Nemendum er gefinn kostur á að nýta áhugasvið sín í náminu.
 • Áhersla er á gott samstarf við foreldra þannig að þeir geti sem best stutt við nám barna sinna.

Það er gaman að vaxa og þroskast í Hörðuvallaskóla:

Samskipti innan skólans einkennast af gagnkvæmri virðingu.  Skólinn ýtir undir alhliða þroska nemenda með áherslu á samskiptahæfni, nærgætni, tillitssemi, lýðræði og heilbrigði.

 • Nemendur taka þátt í bekkjarfundum a.m.k. vikulega þar sem þeir þjálfa samskiptahæfnina og dómgreind sína í samstarfi við aðra og læra lýðræðisleg samskipti og ákvarðanatöku.  Þannig lærum við að umgangast hvert annað af virðingu og velvilja.
 • Á samstundum þjálfast nemendur í að koma fram, vera saman, syngja saman njóta samverunnar og bera virðingu fyrir framlagi annarra.  
 • Áhersla er lögð á uppbyggileg viðfangsefni og samskipti í frímínútum. Þar æfast nemendur í að leika sér saman á friðsamlegan hátt, leysa úr deilum, fara eftir fyrirmælum, virða leikreglur o.fl.
 • Nemendur efla hreyfiþroska sinn og fá útrás fyrir hreyfiþörf sína á hverjum degi. Allir nemendur fara vikulega í útikennslu og kynnast umhverfinu og hollri útiveru.
 • Nemendur hljóta þjálfun í núvitund og hún er hluti af daglegu starfi þeirra. 
 • Nemendur fá tækifæri til að hafa áhrif á skólastarfið á ýmsan hátt og koma sínum skoðunum og hagsmunum á framfæri, m.a. með bekkjafundum, virku nemendaráði, rýnihópafundum og reglulegum skólaþingum. 
 • Allir aðilar skólasamfélagsins hafa í huga að mistök eru eðlilegur hluti af lærdóms- og þroskaferli, þau eru frábært tækifæri til að læra og við leitumst við að nýta þau til þess.

Það er gaman að starfa í Hörðuvallaskóla:

Starfsfólk Hörðuvallaskóla er metnaðarfullt og ber hag nemenda fyrir brjósti.  Það leitast stöðugt við að bæta skólastarfið og gera góðan skóla enn betri. Stuðst er við gögn og rannsóknir í því skyni að bæta skólastarfið. 

 • Starfsfólk skólans vinnur náið saman og deilir ábyrgð í starfi.
 • Allir starfsmenn eiga sér samstarfshóp og umsjónarstjórnanda.
 • Starfsfólk vinnur saman að því að vaxa í starfi og bæta sífellt skólastarfið. Allir starfsmenn hafa aðkomu að veigamiklum ákvörðunum um skólastarfið.
 • Mannauður skólans er virkjaður þannig að styrkleikar starfsmanna nýtist sem best.
 • Áhersla er á öfluga starfsþróun og starfsfólk á kost á valkostum og stuðningi  í þeim efnum.
 • Aðstaða og búnaður er jafnan eins og best gerist.