Stoðþjónusta

Sérkennsla og námsver

Sérkennsla er ein af fleiri leiðum til að ná einstaklingsmarkmiðum í námi. Getur sú kennsla verið í formi stuðnings vegna tímabundinna örðugleika eða samfelldrar sérkennslu í lengri tíma, jafnvel alla skólagöngu nemandans. Skipulag sérkennslu og annar stuðningur getur verið með ýmsum hætti, bæði innan og utan bekkjar. Undir þetta fellur einnig notkun sérstakra kennslugagna, svo sem hljóðbóka o.fl. Nemendur sem eiga í erfiðleikum í námi eða í öðrum þáttum skólastarfsins eiga rétt á athugun hjá sérkennara, sálfræðingi og fleiri sérfræðingum innan skólakerfisins. Að þeim athugunum loknum er reynt að finna bestu úrræði hverju sinni í samráði við umsjónarkennara, skólastjórn, sérfræðinga á menntasviði Kópavogsbæjar, nemendur og foreldra/forráðamenn þeirra. Einstaka nemendur þurfa sérhæft námsefni og er það þá lagað að þroska hvers og eins og hverjum nemanda skapaðir náms- og kennsluhættir við hæfi. Getur þetta falið í sér veruleg frávik frá stundatöflu bekkjar en nemandi er ávallt tengdur sínum bekk og umsjónarkennara. Gerð er einstaklingsáætlun fyrir hvern nemanda þar sem námsmarkmið eru tilgreind og hún endurskoðuð reglulega. Í sumum tilfellum er aðstoð stuðningsfulltrúa/kennara nýtt utan eða innan bekkjar, þar sem veittur er markviss stuðningur, til þess að nemanda líði sem best og takist sem best að fylgja jafnöldrum eftir í hefðbundnu námi inni í bekk. Námsver í Hörðuvallaskóla hafa að leiðarljósi hugmyndafræðina, „skóli fyrir alla“ þar sem í forgrunni er nám við hæfi hvers og eins. Markmið kennslu í námsverum eru: 

 • að nemendur fái kennslu við hæfi
 • að styrkja nemendur í námi
 • að auka vellíðan og áhuga
 • að efla sjálfstraust og öryggi
 • að þjálfa sjálfstæð vinnubrögð

Þó að einstakir nemendur stundi nám sitt í námsveri að hluta eða að miklu leyti eiga þeir samt sem áður sinn umsjónarkennara og eru hluti af umsjónarbekkjum sem þeir eru eins mikið með og hægt er á hverjum tíma. Námsverin skiptast niður í námsver fyrir yngsta stig (1. – 4. bekkur), námsver fyrir miðstig (5. – 7. bekkur) og námsver fyrir elsta stig (8. – 10. bekkur). Þá eru einnig við skólann, tvö námsver sem þroskaþjálfa stýra og námsver nýbúakennslu Við námsverin starfa sérkennarar, stoðkennarar, þroskaþjálfar og stuðningsfulltrúar. Ýmist er sérkennsla veitt inni í bekk eða í námsveri og fer það eftir aðstæðum hverju sinni. Sveigjanleiki er jafnan hafður að leiðarljósi og unnið er markvisst í samvinnu við foreldra/forráðamenn. Gerð einstaklingsáætlana er á ábyrgð umsjónarkennara og fagkennara, ásamt sérkennara. Þeir leggja drögin en áætlanirnar fullvinnast í samráði við foreldra/forráðamenn og nemendur eftir því sem við á. Kennsluráðgjafar sérkennslu sinna skipulagi á sérkennslu á sínum stigum, ásamt viðkomandi kennurum og þroskaþjálfum og öðrum stjórnendum.

Teymi

Teymi eru stofnuð vegna nemenda í skólanum sem eru með fatlanir, greiningar og/eða önnur frávik sem kalla á náið samráð margra aðila. Sérkennsluráðgjafar/deildarstjóri/aðstoðarskólastjórar bera ábyrgð á stofnun teymis en við stofnun þess er tilnefndur umsjónarmaður teymisins sem ber ábyrgð á starfi þess, að fundir séu haldnir, ákvörðunum framfylgt o.s.frv. Umsjónarmaður getur t.d. verið umsjónarkennari, deildarstjóri, aðstoðar-skólastjóri, sérkennari eða þroskaþjálfi.Teymin skipa eftir atvikum umsjónarkennari, sérkennari, kennsluráðgjafi/ deildarstjóri, aðstoðarskólastjóri eða skólastjóri, þroskaþjálfi, námsráðgjafi, skólasálfræðingur, skólahjúkrunarfræðingur, kennsluráðgjafi frá menntasviði og aðrir utanaðkomandi aðilar ef ástæða er til. Mikilvægt er að fundargerðir teymisfunda séu bókaðar í dagbók nemanda í mentor þannig að þær séu öllum nauðsynlegum aðilum aðgengilegar. Að öllu jöfnu starfa teymi meðan nemandinn er í grunnskóla en ef teymi er leyst upp þarf að skrá og rökstyðja þá ákvörðun.

Ákvörðun um sérúrræði

Við úthlutun úrræða s.s. sérkennslu- og stuðningsfulltrúatíma liggja beiðnir umsjónarkennara með rökstuðningi og mati til grundvallar. Stoðteymi hvers stigs yfirfer umsóknir að vori og leggur mat á þörf út frá þeim og niðurstöðum prófa og athugana. Metið er hvort sérkennsla, stoðkennsla eða aðstoð stuðningsfulltrúa hentar betur. Þörf fyrir aðstoð stuðningsfulltrúa í sex ára bekkjum er metin út frá greiningum sem fylgja nemendum og upplýsingum frá leikskólum. Yfir veturinn fer stoðteymi yfir tilvísanir og endurskoðaðar eftir þörfum. Nemendur eru t.d. útskrifaðir úr sérkennslu og námsverum eftir því sem þeim fer fram og nýir teknir inn ef þörf er talin á. Einnig eru stuðningsfulltrúar færðir til ef þörf krefur. Foreldrar eru alltaf hafðir með í ráðum þegar börnum er boðin sérkennsla eða annar stuðningur.

Sérkennarar, þroskaþjálfar og stoðkennarar

Við Hörðuvallaskóla starfa þroskaþjálfar og sérkennarar sem búa yfir framhaldsmenntun og sérhæfingu í sérkennslu. Þeir starfa í námsverum skólans og inni í almennum kennslustofum við sérkennslu / þjálfun með nemendur í hópakennslu og einstaklingskennslu. Þeir sjá um kennslu sem felur í sér breytingar á námsmarkmiðum, námsefni, námsaðstæðum og/eða kennsluaðferðum. Sérkennarar og þroskaþjálfar meta stöðu nemenda og gera námsáætlun í samstarfi við kennara. Þeir veita kennurum ráðgjöf varðandi nám, kennslu og námsgögn og aðstoða kennara við gerð einstaklingsnámskrár fyrir nemendur. Þeir hafa umsjón með námsgögnum sem tengjast sérkennslu. Verksvið sérkennara og þroskaþjálfa er nokkuð mismunandi eftir því hvar þeir starfa og hvernig vinnan er skipulögð en störf þeirra geta falist í kennslu, skipulagi og stjórnun, umsjón með gögnum, ráðgjöf og vinnu við skólaþróun og rannsóknir. Meginreglan er sú að þegar sérkennari eða þroskaþjálfi kemur að málum nemenda er til staðar einstaklingsnámskrá sem unnið er eftir. Kennarar sem starfa í námsverum eða inni í kennslustofum við stuðningskennslu nemenda en hafa ekki yfir að ráða sérmenntun í sérkennslu köllum við stoðkennara. Hlutverk þeirra er að styðja við nám nemenda á ýmsan hátt án þess að um sé að ræða einstaklingsnámskrá. Mikilvægt er hins vegar að skilgreint sé hvert hlutverk stoðkennara er gagnvart námi nemenda og hvert markmiðið er með aðkomu stoðkennarans. Því þurfa að liggja fyrir tilvísanir til stoðþjónustu sem hafa verið afgreiddar á fundi á viðkomandi stigi áður en stoðkennari kemur að málum nemenda. Sérkennarar, stoðkennarar og þroskaþjálfar í samvinnu við aðra kennara m.a.:

 • veita ráðgjöf varðandi nemendur með sérþarfir
 • veita ráðgjöf varðandi skipulag kennslu, kennslurýmis og námsefnis
 • hafa heildarsýn yfir nám og skólagöngu nemenda með sérþarfir
 • aðstoða við gerð einstaklingsáætlana og veita ráðgjöf
 • skipuleggja aðstæður í kennslurými sérkennslustofa
 • hafa umsjón með sjónrænu skipulagi og myndrænni stundatöflu fyrir einstaka nemendur og veitir ráðgjöf
 • vinna með markviss fyrirmæli
 • annast aðlögun námsefnis
 • hafa umsjón með upplýsingamiðlun til aðila innan skóla og utan varðandi nemendur með sérþarfir
 • sitja í teymum vegna nemenda
 • bera ábyrgð á foreldrasamstarfi í samvinnu við umsjónarkennara
 • aðstoða við útfyllingu greiningargagna

Stuðningsfulltrúar

Stuðningsfulltrúar eru hluti af stoðþjónustu skólans. Þeir aðstoða kennara við að sinna nemendum sem þurfa sérstaka aðstoð. Starfið miðar að því að auka færni og sjálfstæði nemenda, félagslega, námslega og í daglegum athöfnum. Stuðningsfulltrúar starfa innan árganga og stoðkerfis. Stuðningsfulltrúi vinnur í samvinnu við kennara og aðra starfsmenn skólans:

 • aðstoðar nemendur við daglegar athafnir og þátttöku í skólastarfi
 • aðstoðar nemendur við að ná settum viðmiðum samkvæmt skólanámsskrá/einstaklingsnámskrá undir leiðsögn kennara
 • ýtir undir færni og sjálfstæði nemenda í námi og daglegum athöfnum t.d. með því að hvetja þá til að gera sem mest sjálfa með jákvæðri styrkingu
 • aðstoðar nemendur við að fylgja settum reglum um hegðun, umgengni og vinnubrögð
 • aðstoðar nemendur við að klæðast, matast og aðrar athafnir daglegs lífs
 • styður nemendur í félagslegum samskiptum í skólastarfinu
 • fylgir nemendum eftir á ferðum þeirra um skólann, í frímínútum, í íþróttum og sundi og í vettvangsferðum
 • situr tilfallandi fundi
 • annast önnur störf sem honum kunna að verða falin.