Skólanámskrá

Grunnur af skólanámskrá Hörðuvallaskóla var unnin árið 2018 og var endurskoðuð vorið 2021. Vinnunni lauk að vori 2022 og má sjá afrakstur hennar hér að neðan.

Skólanámskrá er nánari útfærsla á aðalnámskrá grunnskóla og innifelur allar upplýsingar og áætlanir sem snerta skólastarfið og framkvæmd þess. Skólanámskráin er byggð á aðalnámskrá grunnskóla og er skipt í námsgreinahluta. 

Skólanámskrá Hörðuvallaskóla

Námsgreinahluti skólanámskrár

Hæfniviðmiðin í skólanámskránni í hverjum námsgreinahluta fyrir sig eru unnin beint úr aðalnámskrá grunnskóla. Í öllum árgöngum er unnið út frá viðfangsefnum á tilteknu stigi. Nálgunin er ólík í árgöngum og gerðar eru ólíkar kröfur til nemenda þó þau stefni að því að ná sömu hæfni við lok hvers hæfnikorts.

  • Nemendur í 1.-4. bekk stefna að þeim hæfniviðmiðum sem sett eru fram í aðalnámskrá grunnskóla við lok 4. bekkjar
  • Nemendur í 5.-7. bekk stefna að þeim hæfniviðmiðum sem sett eru fram í aðalnámskrá grunnskóla við lok 7. bekkjar

Þess er gætt að bæði leiðir og námsefni sé við hæfi nemenda. Í námslotum, kennsluáætlunum og verkefnum inni í Mentor sést hvað sett er á oddinn á hverju tímabili í árgöngum.

Námsmat

Námsmat Hörðuvallaskóla fer fram jafnt og þétt á námstíma nemenda og er órjúfanlegur hluti náms og kennslu. Í Hörðuvallaskóla eru allir þættir námsins metnir miðað við hæfniviðmið aðalnámskrár.

Lögð er áhersla á að hafa matsaðferðir fjölbreyttar og að þær hæfi þeim viðfangsefnum sem verið er að meta. Eins eru þau verkefni sem valin eru til mats fjölbreytt og í samræmi við kennslutilhögun.

Námsmat skiptist í leiðsagnarmat og lokamat. Símat, sjálfsmat og jafningjamat eru einnig leiðir í námsmati og geta flokkast undir leiðsagnarmat eða lokamat eftir því hvernig unnið er úr því eftir á. Lokamat metur stöðuna eins og hún er í lok ákveðins tímabils eða vinnuferlis. Leiðsagnarmat byggir á markvissri endurgjöf, þar sem nemendum er leiðbeint um hvað þeir þurfa að gera betur til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að.

Námsmat grundvallast af hæfniviðmiðum viðkomandi námsgreinar í aðalnámskrá grunnskóla og er birt á hæfnikorti nemenda á Mentor þar sem fylgjast má með framvindu náms nemenda. Nemendur fá fjölbreytt tækifæri til að sýna fram á hæfni sína eins og aðalnámskrá kveður á um.

Formlegt lokamat fer fram í 4. og 7. bekk, en fylgjast má með framvindu náms nemenda á hæfnikorti þeirra inni í Mentor. Matskvarðinn sem metið er á í 1.-6. bekk er framúrskarandi, hæfni náð, á góðri leið, þarnast þjálfunar, hæfni ekki náð þar til í 7. bekk.

Við lok 7. bekkjar eru nemendur metnir miðað við þau matsviðmið sem birt eru í aðalnámskrá þar sem A hæfni, B hæfni og C hæfni hefur verið skilgreind í hverjum námsþætti.

Í einhverjum tilvikum t.d. í lesfimiprófum eru upplýsingarnar um mat settar fram á annan hátt og eru gefnar umsagnir þegar það á við.

Uppbygging náms

Uppbygging námsins er hæfnimiðuð sem þýðir að lögð er áhersla á að nemendur fái tækifæri við hæfi til að vinna að þeirri hæfni sem þeir stefna að öll árin á því stigi sem nemendur eru. Sjá nánar í Aðalnámskrá grunnskóla