Stöðluð próf

Lesfimipróf

Menntamálastofnun hefur sett fram viðmið um stöðu nemenda í lesfimi með stöðluðum einstaklingsprófum sem veita upplýsingar um stöðu nemenda. Lesfimiprófið metur færni sem  birtist í sjálfvirkum, nákvæmum og fyrirhafnarlausum  lestri en þeir þættir, ásamt  réttu hljómfalli og viðeigandi  afmörkun  hendinga, stuðla  að auknum lesskilningi. Lesfimiprófin eru lögð fyrir í september, janúar og í maí og er sama prófið lagt fyrir í öll skiptin í hverjum árgangi en prófútgáfurnar eru alls tíu, eitt fyrir hvern árgang. Þar sem um staðlað lesfimipróf er að ræða er gert ráð fyrir að prófútgáfur séu aðeins notaðar fyrir þann aldurshóp sem þeim er ætlað að meta. Aðrar upplýsingar um prófið má finna á vef Menntamálastofunar.

Orðarún

Lesskilningsprófið Orðarún er ætlað nemendum í 3. til 8. bekk og eru lögð fyrir tvisvar á skólaári í hverjum árgangi. Hvert próf samanstendur af tveimur textum og fylgja tíu fjölvalsspurningar eða fullyrðingar hvorum texta. Nemendur í 3. og 4. bekk velja á milli þriggja svarmöguleika en eldri nemendur velja á milli fjögurra svarmöguleika. Efni textanna þyngist eftir því sem nemendur eru eldri, orðum fjölgar og letrið minnkar. Spurningar verða að sama skapi þyngri.

Spurningar í Orðarún reyna í stórum dráttum á ferns konar færni:

• Að greina staðreyndir sem koma fram í texta, orðréttar eða umorðaðar.

• Að draga ályktanir af því sem ekki er sagt með berum orðum í texta.

• Að átta sig á meginefni texta.

• Að útskýra orð og orðasambönd.

Önnur stöðluð próf

Auk þess eiga skólar aðgang að greinandi prófum og öðrum mælitækjum sem auðvelda könnun á tilteknum þáttum náms og kennslu. Stöðluð lestrarpróf, stærðfræðipróf, hreyfiþroskapróf, lesskimunarpróf (sem spá fyrir um hugsanlegan lestrarvanda), staðlaðir spurningalistar og fleiri slík mælitæki reynast oft gagnleg hjálpartæki til að greina erfiðleika snemma á skólagöngunni og auka þannig líkur á að ráða megi bót á vandanum með skipulegum aðgerðum.

Nánar um skimanir árganga má nálgast hér