Rýmingaráætlun

Við hættuástand getur reynst nauðsynlegt að rýma skólann. Grundvallaratriði er að starfsfólk og nemendur hafi æft viðbrögð þannig að þau komi eins og af sjálfu sér þegar á þarf að halda. Við þann hraða sem ræður ferðinni við brátt hættuástand er ekki svigrúm til miðstýrðra fyrirmæla. Hver starfsmaður verður því að vita hvað hann á að gera og nota eigin dómgreind til að meta aðstæður, t.d. hvar nemendur eru hverju sinni, hvort hann eigi að fara út með nemendahópinn út um venjulega útgönguleið eða út um neyðarútganga. Kynning fyrir starfsmenn fer fram m.a. með yfirferð á handbók að hausti. Nemendur fá kynningu í tengslum við rýmingaræfingar sem eru a.m.k. einu sinni á ári.

Rýmingaræfing

Útskýra þarf tilgang æfinganna fyrir nemendum, sem er:

  • Aukið öryggi og þekkja viðvörunarbjöllurnar.
  • Kunna að bregðast rétt við og æfa fumlaus viðbrögð.
  • Koma í veg fyrir slys við rýmingu á húsnæði og þekkja bestu leiðirnar úr skólahúsinu.

Sjálfsagt er að ræða við nemendur að æfing er alvarleg eðlis, - en ekki leikur. Áríðandi er að útskýra vel fyrir nemendum að ef viðvörunarbjallan þagnar fljótlega eftir að hún fer af stað og fer ekki í gang aftur er um bilun eða gabb að ræða. Þ.e.a.s. við forviðvörun vita nemendur og kennarar að hætta getur verið á ferðum, en ekki er þó farið út fyrr en við fulla hringingu.  Ef á hinn bóginn bjallan fer af stað aftur og stöðvast ekki er hætta á ferðum og rýma þarf húsið.  Þ.e ef bjalla hringir í annað sinn og hringir stöðugt þá skal rýma húsið,  Kennari stýrir útgöngu sinna nemenda. Hver kennari fer yfir hvar nemendur safnast saman til manntals og nánari fyrirmæla (samkomustaður). Á heimasvæðum ganga þeir fyrst út sem næstir eru rýmingarleið. Ef aðstæður leyfa fara nemendur í úlpur og skó (ekki reima, setja reimarnar niður í skóna), því ekki er hægt að senda börnin klæðalítil út í válynd veður nema í ítrustu neyð. Hver nemendahópur safnast saman á samkomustað en staðirnir eru valdir þannig að þeir trufli ekki nauðsynlegt athafnasvæði neyðar starfsmanna við bygginguna. 

Rýming (skólaæfing / hættuástand)

Stjórnstöð viðvörunarkerfis gefur stjórnendum og umsjónarmanni hússins skilaboð um hvar neyðarboði fer af stað. Upptök eru könnuð eins hratt og mögulegt er. Bjallan er stöðvuð á meðan, - ef um hættu er að ræða er bjallan gangsett á ný. Þá fyrst ber að rýma húsið. Húsið er rýmt samkvæmt áætlun. Þegar allir eru komnir út er nauðsynlegt að starfsmenn sjái um að ekki sé farið inn í skólann aftur fyrr en æfingu eða hættuástandi er lokið. Kennari tryggir að allir nemendur hans hafi skilað sér á samkomustað. Ef svo er ekki kemur hann boðum til deildarstjóra/söfnunarstjóra sem verður á lóðinni. Hann tryggir að neyðarstarfsmenn fái þessar upplýsingar, svo leit hefjist snarlega í byggingunni. Allir starfsmenn verða að leggjast á eitt þannig að rýming hússins verði fumlaus og róleg án troðnings (ekki hlaupa). Hópar halda sig á sínu svæði þar til merki hefur verið gefið um að æfingu sé lokið eða hættuástand afstaðið. Söfnunarstjórar/Deildarstjórar gefa leyfi fyrir að fara aftur inn í húsið þegar það er óhætt. 

Hlutverk starfsfólks

Kennari ber ábyrgð á sínum nemendahópi. Allir sem ekki eru umsjónarkennarar (t.d list og verkgreinakennarar) þurfa að fylgja þeim nemendhópi á sitt söfnunarsvæði. Stjórnandi hefur yfirsýn og veitir upplýsingar til neyðarstarfsmanna þegar þeir koma að skólanum. Ritari hefur með sér tengslamöppu nemenda, foreldra og starfsmanna.   Skólaliðar og umsjónarmaður aðstoða við rýmingu, halda hurðum opnum, aðgæta salerni o.fl. þ.h. Allir noti eigin dómgreind sem grundvöll ákvarðanatöku!

Í stuttu máli: Í hverri stofu skal vera nafnalisti með nöfnum barnanna, þar sem skráðir eru mætingartímar hvern dag. Hver og einn kennari tryggir að nafnalisti sé hangandi inn í stofu í þar tilgerðum plastvasa.  Í hverri stofu skulu einnig vera græn eða rauð spjöld og tússpenni þar sem kennari skrifar nafn bekkjar síns. 

Ef brunaviðvörunarkerfið gefur viðvörun skal unnið eftir eftirfarandi rýmingaráætlun.

1. Húsvörður eða stjórnandi  fer að stjórntöflu brunaviðvörunarkerfis og aðgætir hvaðan brunaboðið kemur.

2. Kennarar undirbúa rýmingu kennslustofunnar. Börnin þurfa að fara í skó og yfirhafnir, eftir aðstæðum hverju sinni.

3. Húsvörður eða skólastjóri  hefur samband við slökkvilið í síma 112. Tilkynnir um eld eða gefur skýringar á brunaboðinu. Starfsfólk rýmir skólann og fer á söfnunarsvæðið. Muna eftir nafnalista úr hverri stofu. 

4. Þegar komið er á söfnunarsvæðið skal hver deild hafa afmarkað svæði. Kennarar fara yfir nafnalista og aðgæta hvort öll börnin hafi komist út. Ef öll börn bekkjarins hafa skilað sér er grænu spjaldi haldið á lofti  - ef einhverja vantar er rauðu spjaldi haldið á lofti. 

5. Söfnunarstjórar/Deildarstjórar fara á milli hópa og fá upplýsingar um hve mörg börn hafa ekki skilað sér með hópnum út og ef mögulegt er hvar þau sáust síðast. Deildarstjórar upplýsa húsvörð eða  skólastjóra um hverja vantar. Ritari er með starfsmannalista og gætir þess að allir starfsmenn mættir þann dag hafi rýmt húsið. 

6. Slökkvilið kemur á staðinn, skólastjórinn eða húsvörður  gefur varðstjóra upplýsingar um hve mörg börn hafa orðið eftir inni og hugsanlegar staðsetningar þeirra.

7. Farið með börn og starfsfólk af svæðinu t.d. í nær liggjandi byggingu ef mögulegt er. Sá aðili sem síðastur fer út úr hverri stofu skal loka öllum hurðum á eftir sér til að draga úr reykflæði um bygginguna og hindra útbreiðslu elds eins og hægt er

Mynd af söfnunarsvæði hangir inn í öllum stofum en má einnig sjá fyrir neðan: