Frístund Hörðuvallaskóla - Hörðuheimar

Frístund Hörðuvallaskóla ber nafnið Hörðuheimar og er staðsett úti í Þorpi, fjórum skúrum á skólalóð. Starf 3. og 4. bekkjar, Kastalans, er á efri hæð græna gangs  skólans.

Umsókn um Frístund fer fram í gegnum https://fristund.vala.is/umsokn/#/login 

Frístund er fyrir börn í 1. - 4. bekk og er opin eftir að hefðbundnum skóladegi lýkur til 17.00. Börnin eru sótt út í skóla af starfsmönnum Hörðuheima þegar skóladagur lýkur og fylgt út í Þorp. Frístund er opin alla þá daga sem skólinn starfar og einnig allan daginn á starfsdögum kennara, nema að tvo daga yfir veturinn þegar Hörðuheimar eiga starfsdaga. Frístund er ekki opin í vetrarfríum. Starfsemi í Hörðuheimum hefst daginn eftir skólasetningu og er opin út vikuna eftir skólaslita dag.

Forstöðumaður Hörðuheima er Margrét Stefanía Þorkelsdóttir, póstfang;  margretsth@kopavogur.is

Aðstoðarforstöðumaður er Margrét Áslaug Heiðarsdóttir, póstfang:    margret.h@kopavogur.is

Foreldrar eru hvattir til þess að vera í góðu sambandi við forstöðumenn annað hvort í gegnum síma eða í gegnum tölvupósta. 

Breytingar á heimferðum barna frá degi til dags og almenna tölvupósta skal senda á póstfangið; horduheimar@kopavogur.is

Sími Hörðuheima / Kastalans

1 & 2 bekkur – 825 5947

3 & 4 bekkur – 825 5949

Gjald

Samræmt gjald er fyrir vist í frístund í Kópavogi. Upplýsingar um gjaldskrá má nálgast á vefslóðinni  https://www.kopavogur.is/is/gjaldskra

Gjalddagi er 1. hvers mánaðar og greiðist fyrirfram. Eindagi er 10. hvers mánaðar.

Um jafnt gjald er að ræða og er því sama gjald fyrir vistun óháð fjölda skóladaga í mánuðinum. Í september og maí greiðist hærra gjald þar sem vika af ágúst og júní reiknast með. Gjöld fyrir vistun og síðdegishressingu greiðast í gegnum heimabanka foreldra. Ekki er sendur greiðsluseðill nema foreldrar óski sérstaklega eftir því. Uppsögn á vistun fer fram á Völu og tekur gildi þann dag sem sem foreldri velur.

Starfsemi

Starfið í frístund byggist að miklu leyti á vali barnanna sem þau skrá á valtöflu í Guluheimum. Boðið er upp á val í Guluheimum, Rauðuheimum, Grænuheimum, Bláuheimum og Svörtuheimum. Skúrarnir hafa allir mismunandi þemu. Í Guluheimum geta börnin farið í rólegheit, lesið bækur eða spilað. Rauðuheimar eru tvískiptir, annars vegar er hægt að velja mismunandi verkefni og hins vegar perl. Í Grænuheimum er dúkkudótið okkar, búningar og fleira dót í hlutverkaleiki. Í Bláuheimum eru margar tegundir kubba, bíla og leikfangakarla. Í Svörtuheimum er boðið uppá leiki, just dance og bíómyndir. Þar er svið þar sem settar eru upp litlar leiksýningar.

Kastalinn er fyrir 3. og 4.  bekk. Þar skapa börnin sína dagskrá sjálf en alla daga er val, t.d. perlur,  margskonar spil, segulkubbar, borðtennisborð, litir og margt fleira. 

Starfið er mjög fjölbreytt og allir eiga að finna eitthvað við sitt hæfi. Í Hörðuheimum er lögð áhersla á að þroska félagslega færni í gegnum leik og starf. Hörðuheimar nota lýðræðislega starfshætti og efla hæfni barnanna til að móta sér sjálfstæðar skoðanir og hafa áhrif á umhverfi sitt og aðstæður. Barnaráð var stofnað í haust. Ráðið byggir á 12. grein Barnasáttmálans þar sem kveðið er á um rétt barna til að láta skoðanir sínar í ljós og til að hafa áhrif.

Í Hörðuheimum leggjum við áherslu á að starfsemin taki ávallt mið af sjónarhorni barnanna með hagsmuni og vellíðan þeirra að leiðarljósi. Aðra hverja viku er 1. og 2. bekkur saman á fundi inni í sal. Þar eru valin sex börn í 2. bekk og fjögur börn í 1. bekk, með trommuslætti og fagnaðarlátum. Hugmyndakassi Hörðuheima er börnunum aðgengilegur alla daga þar sem þau geta komið hugmyndum sínum á framfæri í lituðu eða skriflegu formi. Barnaráðið situr í tvær vikur í senn. Barnaráðið situr fund með starfsmanni þar sem farið er í gegnum hugmyndakassa Hörðuheima, ásamt því að skipuleggja barnaráðsdag. Hugmyndir úr hugmyndakassanum eru flokkaðar í þrjá flokka; framkvæmanlegar hugmyndir, óframkvæmanlegar hugmyndir og ógildar hugmyndir.

Starfsmenn Hörðuheima sjá um síðdegishressingu. Boðið er uppá fjölbreytta fæðu.

Frístundavagninn

Íþróttafélög Kópavogs bjóða upp á frístundavagn sem gengur á alla helstu æfingastaði bæjarins. Skráning í þá fer fram inni á https://fristund.vala.is/umsokn/#/login. Valið er fótboltamerkið og þar eru allar upplýsingar fylltar inn. Eftir að skráð hefur verið í vagninn þarf að senda forstöðumönnum tölvupóst þess efnis. 

Starfsáætlun Hörðuheima 2022-2023