Skólareglur og fjarvistaviðmið

Hér má finna skólareglur skólans sem unnar voru veturinn 2017-2018. 

Við vekjum einnig athygli á samræmdum viðmiðum grunnskóla Kópavogs vegna óviðunandi skólasóknar sem finna má hér.

Skólareglur

Eftir vinnu með nemendum og starfsfólki skólaárið 2017-2018 er ljóst að þrjár meginreglur ná yfir þá þætti sem þykja mikilvægastir. Undir hverjum þætti  koma fram atriði sem hver og einn þarf að hafa í huga til að reglan nái fram að ganga. Flest atriði undir „þess vegna þarf ég að“ koma beint frá nemendum skólans.

 

Ástundun
Ástundun snýst um það hvernig við sinnum námi okkar, hvort við leggjum okkur fram, erum stundvís og vinnusöm.  Með því að vinna vel og leggja sig fram næst betri árangur. Þær stöðvar í heilanum sem eru þjálfaðar styrkjast og gera mann betri í því sem maður glímir við. Ef maður leggur ekkert á sig nær maður ekki árangri.  Þegar við náum árangri en auðveldara að hafa gaman í skólanum. 

Við sinnum námi okkar og starfi markvisst, af þrautseigju  og metnaði, leggjum okkur fram um að gera okkar besta og gefa öðrum vinnufrið.

Þess vegna þarf ég að:

  • sofa vel
  • borða hollan mat og hreyfa mig
  • vera metnaðarfull/ur og leggja mig fram um að vinna vel í skólanum
  • hafa hljóð þegar við á og trufla ekki aðra
  • leita aðstoðar þegar ég þarf á að halda
  • þiggja þá aðstoð  sem mér býðst
  • ekki fela það þegar ég skil ekki eitthvað eða veit ekki alveg hvað ég á að gera
  • láta vita þegar efni er of létt fyrir mig
  • aðstoða aðra þegar ég get
  • hugsa um sjálfa/n mig og vera einbeitt/ur
  • hlaða  spjaldtölvuna
  • nota spjaldtölvuna markvisst í námi mínu  þegar við á og láta ekki leiki og annað í spjaldinu trufla mig við námið
  • fylgjast með tímanum og passa mig að mæta á réttum tíma

 

Samskipti

Samskipti snúast bæði um samskipti starfsfólks og nemenda og samskipti nemenda sín á milli. Þegar allir leggjast á eitt um að hafa samskipti góð aukast líkur á því að öllum þyki gaman í skólanum.

Við komum fram við hvert annað af virðingu, tillitsemi og ábyrgð og virðum rétt hvers annars til vera við sjálf og  örugg

Þess vegna þarf ég að:

  • hugsa áður en ég tala
  • koma eins fram við aðra eins og ég vil að þeir komi fram við mig
  • koma vel fram við alla starfsmenn og nemendur
  • vera góður við aðra svo þeim líði vel
  • sýna tillitsemi og hrósa hvert öðru
  • fara eftir fyrirmælum starfsmanna – bæði í tímum, á göngum og úti í frímínútum
  • bjóða öðrum að vera með svo allir geti haft gaman
  • leyfa öllum að vera með og skilja engan útundan
  • sýna kurteisi og virða persónulegt rými annarra
  • hjálpa öðrum og stoppa einelti ef einhver er að stríða
  • sleppa því að stríða öðrum, slást eða lemja

 

Umgengni

Umgengni snýst um það hvernig við göngum um skólann okkar, eigur hans og eigur annarra.  Hún snýst einnig um það hvernig við komum fram á skólalóðinni og í kringum snjalltækin okkar. Með því að læra góða umgengni og leggja sig fram um hana er ýtt undir að skólabragur verði metnaðarfullur og jákvæður.

Við göngum vel um skólann, eigur hans og eigur hvors annars.  Við göngum rólega innan dyra, göngum frá eftir okkur og látum það sem við eigum ekki vera.

Þess vegna þarf ég að:

  • hugsa um eigin umgengni
  • ganga á göngunum
  • ganga frá eftir mig og henda rusli í ruslafötur
  • ganga frá fötunum mínum
  • nota inniröddina og hækka ekki röddina
  • vera á skólalóðinni í frímínútum
  • vera á snjóboltasvæðinu í snjókasti
  • passa að henda ekki snjóboltum í þá sem vilja ekki láta kasta í sig
  • sleppa því að henda snjóbolta í rúður
  • ganga vel um leiktækin á skólalóðinni
  • borða aðeins þar sem leyfilegt er að borða
  • sýna hreinlæti í matsalnum
  • vera róleg/ur í matsalnum og í kringum aðra
  • nota símann ekki í skólanum heldur geyma hann og spjaldtölvur í töskunni nema þegar leyfi er gefið til að nota spjaldið

 

Viðbrögð við brotum

  • Brjóti nemandi reglurnar, ræðir nærstaddur kennari/starfsmaður málið við nemanda. Ef um endurtekin brot er að ræða er umsjónarkennari látinn vita og/eða forráðamaður eftir alvarleika málsins.  Við brot á reglum dugar ábending starfsmanns  í flestum tilvikum til að nemandi sjái að sér og bæti ráð sitt. Einn þáttur skólastarfs er að leiðbeina nemendum um hegðun og samskipti og mikilvægt er að starfsmenn leggist allir á eitt um þá leiðbeiningu.
  • Taki nemandi sig ekki á, ber kennara/starfsmanni að ræða aftur við nemandann og upplýsa umsjónarkennara um málið. 
  • Beri viðleitni kennarans/starfsmannsins ekki árangur vísar hann málinu til stjórnanda.
  • Umsjónarkennari skal upplýstur og fylgist með allan tímann og kemur að málinu eftir því sem þurfa þykir.
  • Alvarleiki brota ræður alvarleika viðbragða. Ef um líkamlegt eða andlegt ofbeldi gagnvart öðrum nemendum  er að ræða er haft samband við foreldra eða þeir kallaðir til samdægurs.  Barnavernd kemur inn í alvarlegustu málin.

Ferli vegna óæskilegrar hegðunar hjá nemendum:

 

Öll tilvik sem ekki tekst að leysa á staðnum skulu skráð í dagbók viðkomandi nemanda í mentor.

  • Ítrekuð brot á reglum skólans geta leitt til brottvikningar úr skólanum um stundarsakir.

Um meðferð alvarlegra eða endurtekinna agabrota vísast til reglugerðar um ábyrgð og skyldur skólasamfélagsins í grunnskólum. Reglugerðina má nálgast á vefslóðinni:
https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?ID=ee3c91b7-164b-46ab-9e21-59e3fd3720c2