Hörðuvallaskóli fékk Kópinn 2019

Kópurinn - viðurkenning menntaráðs Kópavogs Kópurinn, viðurkenningar menntaráðs Kópavogs fyrir framúrskarandi grunnskóla- og frístundastarf í Kópavogi, var veittur við hátíðlega athöfn í Salnum fimmtudaginn 16. maí. Alls bárust tuttugu tilnefningar til menntaráðs og voru veittar fimm viðurkenningar fyrir verkefni sem þóttu fela í sér umbætur eða leiða til framfara í skóla og frístundastarfi. Það er gaman að segja frá því að eitt af þeim verkefnum sem hlaut viðurkenningu í ár var verkefnið „Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna á þemadögum í Hörðuvallaskóla“. Það er Anna María kennsluráðgjafi sem á mestan heiður af þessari viðurkenningu en hún undirbjó þemaverkefnin okkar á þemadögunum fyrr í vetur og tókust þemadagarnir með miklum sóma. Það er einnig ánægjulegt að geta þess að af þeim tuttugu verkefnum sem voru tilnefnd til Kópsins í ár voru fimm úr Hörðuvallaskóla. Auk framangreinds verkefnis var þar um að ræða innleiðingu núvitundar, skákkennsluna í Hörðuvallaskóla, breytingarnar á bókasafninu og vinnu með hæfniviðmið aðalnámskrár með nemendum. Við erum að sjálfsögðu afar stolt af þessum árangri og er þetta hvatning til að halda áfram og gera enn betur í viðleitni okkar til að hafa ávalt öflugt skólastarf í fremstu röð í Hörðuvallaskóla!


Athugasemdir