Snemma í nóvember fór fram skólamót HSÍ í handbolta. Hörðuvallaskóli tók þátt í annað sinn en mótið er haldið fyrir nemendur í 5. og 6. bekk. Mikil spenna var hjá nemendum fyrir mótinu sem endurspeglaðist í frábærri skráningu en alls voru 23 lið skráð frá okkur á mótið í árgöngunum tveimur. Sumir nemendur æfa handbolta í hverri viku en aðrir höfðu aðeins spilað í skólaíþróttum en það stoppaði þá ekki í að sýna flott tilþrif og góðan liðsanda. Líkt og í fyrra gátum við treyst á foreldrahópinn okkar sem aðstoðaði með því að skutla nemendum á leikstað og til baka aftur. Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.
Nokkur af okkar liðum komust áfram og spiluðu á úrslitadaginn. Það er ljóst að margir efnilegir handboltamenn eru í skólanum því Hörðuvallaskóli átti þrjú af fjórum liðum sem léku til úrslita í fimmta bekk. Stúlknamegin enduðu okkar stelpur í öðru sæti eftir spennandi úrslitaleik og drengjamegin var úrslitaleikurinn milli tveggja liða úr Hörðuvallaskóla. Að úrslitaleiknum loknum fögnuðu liðin saman og með þeim drengir úr grönnum okkar í Vatnsendaskóla sem studdu vel við bakið á vinum sínum.
Á skolamot.is má sjá myndband af mótinu þar sem okkar nemendur koma nokkuð við sögu.
|
Baugakór 38, 203 Kópavogur Sími: 441-3600 |
Skrifstofa skólans er opin kl. 08:00-15:00 virka daga á starfstíma skólans. |
Tilkynningar um veikindi / leyfisóskir vegna nemenda: 441-3600 / ritari.horduvallaskola@kopavogur.is