Norðurlandameistarar grunnskólasveita!

Norðurlandaskákmót grunnskólasveita fór fram í Tampere í Finnlandi, vinabæ Kópavogs, 7.-9. september 2018.

Teflt var í tveimur aldursflokkum; yngri (1.-7. bekk) og eldri (8.-10. bekk). 
Sex sveitir tóku þátt í hvorum flokki, skipaðar 4 aðalmönnum og einum varamanni.  Þar af voru tvær frá gestgjöfunum, Finnum, og ein sveit frá hverju hinna Norðurlandanna þ.e. Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Íslandi.

Harðsnúin sveit Hörðuvellinga vann sigur í eldri flokki með 17 ½ vinning af 20 mögulegum.  Sveitina skipuðu að venju Vignir Vatnar Stefánsson, Stephan Briem, Arnar Milutin Heiðarsson, Sverrir Hákonarson, Benedikt Briem og Óskar Hákonarson.  Drengirnir eru allir í 10. bekk nema Benedikt sem er í  7. bekk.
Þetta er í annað sinn sem liðsmenn HV vinna Norðulandameistartitill.  Í fyrra skiptið var það í yngri flokki 2016 þegar mótið var haldið í Osló.

Í öðru sæti urðu Danir og Norðmenn lentu í þriðja sæti.

Svíar báru sigur úr býtum í yngri flokki, Norðmenn hlutu annað sætið og Danir urðu þriðju í röðinni.  Álfhólsskóli, fulltrúi Íslands, varð í fjórða sæti.

Þeir Hákon Sverrisson, faðir Sverris og Óskars, og Kjartan Briem, faðir Stephans og Benedikts voru fararstjórar og stóðu sig með miklum ágætum.   Gunnar Finnsson var liðsstjóri sveitarinnar.  Kjartan var jafnframt skipulagsstjóri ferðarinnar og fórst það einkar vel úr hendi.

Teflt var á gististaðnum Scandia Tampere Koskipuisto.  Aðstaðan var prýðileg og matur og gisting eins og best verður á kosið. Keppnisstaðurinn var mjög góður en helst mátti finna að hversu lágkúrulegir taflmennirnir voru en það kom auðvitað jafnt niður á öllu keppendum.

Þetta var frábært ferðalag og ánægjuleg úrslit!

GF


Athugasemdir