Sigurvegari í ljóðasamkeppni grunnskólanna í Kópavogi

Frá vinstri: Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, Henrik Hermannsson sigurvegari í ljóðakeppni…
Frá vinstri: Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, Henrik Hermannsson sigurvegari í ljóðakeppni grunnskólanna 2018, Ásdís Óladóttir í dómnefnd, Sindri Freysson handhafi Ljóðstafs Jóns úr Vör 2018, Anton Helgi Jónsson formaður dómnefndar, Karen E. Halldórsdóttir formaður Lista- og menningarráðs og Bjarni Bjarnason sem einnig er í dómefnd ljóðakeppnanna.

Á ljóðahátíð í Salnum í Kópavogi þann 21. janúar var tilkynnt um úrslit í ljóðasamkeppni grunnskólanna í Kópavogi. Henrik Hermannsson nemandi í 7. bekk Hörðuvallaskóla hlaut þar fyrstu verðlaun fyrir ljóðið Myrkrið. Í öðru sæti var ljóðið Frelsi eftir Eyrúnu Flosadóttur í 9. MSJ í Kársnesskóla en ljóðið Allt eða ekkert eftir Söndru Diljá Kristinsdóttur í 8. bekk Salaskóla var í þriðja sæti. Vinningsljóðum grunnskólanema verður dreift um bæinn á veggspjöldum og bókamerkjum.

Auk þess sem framangreind verðlaun voru veitt fengu 8 nemendur viðurkenningar frá dómnefnd fyrir sín ljóð og ánægjulegt að af þeim hópi voru hvorki meira né minna en fjórir nemendur úr Hörðuvallaskóla.  Það voru þau Elmar í 5.L, Andrea í 5.S, Bjarki Freyr í 7.G og Vigdís Helga í 7.G. 

Innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur!  

 

Sigurljóð Henriks: 

 

Myrkrið

Það er dimmt og ég er hræddur
ég veit ekki hvert ég er að fara eða hvar ég á heima.
Vindurinn blæs á móti mér og það rignir
mér finnst ég vera einhver annar.
Ég hleyp eins hratt og ég get.
Ég heyri öskur og hleyp enn hraðar
inn í myrkrið.
Ég hleyp bara eitthvert í von að ég komist heim.
Ég er þreyttur og mig langar að sofna
en ég get það ekki og verð að halda áfram
en ég er rennblautur og leggst á jörðina.
Ég gefst upp og hætti að reyna
ég vissi að það var enginn tilgangur að reyna.
En í sama bragði sá ég spegilmynd mína
ég spyr sjálfan mig hvað get ég gert?
Ég ákvað að ég ætlaði ekki að gefast upp
ég stóð upp og hljóp eins hratt og ég gat.
Ég sá ljós þarna átti ég heima.

Henrik Hermannsson 7.G Hörðuvallaskóla

 


Athugasemdir