Tölvubúnaður

Spjaldtölvur

Búnaður

Allir nemendur skólans fá afhenta spjaldtölvu til afnota að hausti sem þeir þurfa svo að skila aftur að vori. Spjaldtölvurnar eru eign Kópavogsbæjar og eru aðgangsstýrðar og settar upp þannig að nemendur geta eingöngu sótt öpp/smáforrit sem þykja í hæfi fyrir aldur þeirra og námsþarfir. Umsýslukerfið sem bærinn notast við til að halda utanum tækjakostinn og stýringu heitir Jamf.

Nokkrar tegundir Apple-spjaldtölva eru í umferð í Hörðuvallaskóla. Skólaárið 2023-2024 dreifast þær á eftirfarandi hátt:

  • 1.bekkur – iPad 7th gen og iPad 8th gen
  • 2.bekkur – iPad Air 2
  • 3.bekkur – iPad Air 2 og iPad 5th gen
  • 4.bekkur – iPad 6th gen
  • 5.bekkur – iPad 6th gen
  • 6.bekkur – iPad 6th gen
  • 7.bekkur – iPad 9th gen (þessi sömu tæki fylgja nemendum yfir í Kóraskóla næsta haust)

 

AppleID

Allir nemendur fá úthlutuðu stýrðu Apple ID frá Kópavogsbæ. Nemendur geta ekki notast við Apple ID frá skólanum á eigin tæki heldur aðeins á spjaldtölvur skólans. Lokað er fyrir AppStore á spjöldum nemenda og geta þeir aðeins sótt öpp sem hafa verið samþykkt af bænum til notkunar.

Apple ID nemenda hefur endinguna @kopnam.is en ekki er um eiginlegt tölvupóstfang að ræða.

 

Google

Nemendur í 5. – 7. bekk fá Google-aðgang frá Kópavogsbæ (með endingunni @kopskolar.is) og aðgengi að gagnavistun í skýi (Google Drive). Google-aðgangurinn er virkt netfang sem nemendur geta notast við í samskiptum sín á milli og við starfsfólk skólans. Netfangið er þó takmarkað við notkun innan Kópavogsbæjar og er lokað fyrir póstsendingar til og frá netfanginu gagnvart utanaðkomandi aðilum.

Umsjónarkennarar nemenda í 4. bekk geta einnig óskað eftir Google-aðgangi fyrir sína nemendur ef þurfa þykir í námslegum tilgangi. T.d. ef þeir vilja notast við Google-smáforritin í kennslunni (Classroom, Docs, Sheets, Slides o.s.frv.). Ekki er notast við Google-umhverfið með yngri nemendum (1. – 3. bekk).

 

Lykilorð

Lykilorð nemenda að AppleID og Google aðgangi er úthlutað í upphafi skólaárs og þurfa nemendur að leggja það á minnið. Við reynum að notast við sama lykilorð út alla skólagöngu nemenda. Ef nemandi gleymir lykilorðinu sínu þarf hann að leita til deildarstjóra UT-mála sem getur flett því upp. Það sama á við um „passcode“ eða kóðann inn á tækin. Ef nemandi gleymir kóðanum skal ekki gera margar tilraunir til að opna tækið heldur leita strax til deildarstjóra UT-mála.

 

Notkun spjaldtölva á skólatíma

Nemendur og kennarar ræða notkun spjaldtölva á bekkjarfundum að hausti og gera í framhaldinu sáttmála um notkun tækjanna. Mælt er með því að sáttmáli um notkun spjaldtölva sé sýnilegur í umsjónarstofum.

Kennarar skólans geta stýrt iPad notkun nemenda sinna á skólatíma í gegnum umsýslukerfið Jamf. Þá geta þeir einnig fylgst með því sem nemendur gera í tækjunum á skólatíma í gegnum Apple Classroom kerfið.

 

Notkun spjaldtölva heima

Kópavogsbær leggur upp með að nemendur í 5.-10. bekk grunnskólanna megi taka tækin með sér heim í lok skóladags, um helgar og í vetrar-, jóla- og páskafríum. Rannsóknir sýna fram á að spjaldtölvurnar ýti undir óformlegt nám nemenda og jafni tækifæri allra nemenda til persónulegrar námsaðlögunar og við athafnir dagslegs lífs.

Spjöldin hafa yfirleitt farið heim með nemendum grunnskóla Kópavogs þegar líða fer á veturinn í 5. bekk. Áður en spjöldin fara heim er mikilvægt að forsjáraðilar séu upplýstir um það og að þeir séu meðvitaðir um notkunarskilmála tækjanna. Þá eru þeir einnig beðnir um að horfa á myndbandið Upplýsingar fyrir foreldra frá kennsluráðgjöfum bæjarins.

Þetta vinnulag hefur þróast í þá átt hér í Kópavogi að kennurum í 5. bekk er í sjálfsvald sett hvenær spjaldtölvurnar fara heim með nemendum og helst það þá í hendur við þau verkefni sem lögð eru fyrir nemendur að vinna heima (t.d. tengd heimalestri). Einhverjir kennarar byrja af fullum krafti að nýta þennan möguleika á meðan aðrir gefa sér lengri tíma til að aðlaga snjalltækin að kennsluháttum og sjálfstæðu námi/heimanámi nemenda og er það því misjafn milli ára hvenær tækin eru að fara heim.

Nemendur skulu fylgja þeim reglum sem forsjáraðilar þeirra setja heimafyrir. Komi í ljós að mati skólans eða foreldra/forsjáraðila að nemandi eigi í erfiðleikum með að fylgja settum reglum foreldra geta foreldrar/forsjáraðilar eða skólinn ákveðið að spjaldtölvan sé alfarið geymd í skólanum. 

 

13.10.2023

Skilmálar vegna afnota af spjaldtölvu hafa verið uppfærðir.

Skilmálar vegna afnota af spjaldtölvu hafa verið uppfærðir sem hér segir:
Í 3. lið breytist “umsýslukerfið Lightspeed” í “umsýslukerfi” en um þessar mundir er verið að fara úr Lightspeed umsýslukerfinu yfir í Jamf umsýslukerfið.

Í 6. lið bætist við: “Nemanda er heimilt að taka spjaldtölvuna með sér heim að loknum skóladegi” verður “Nemanda í 5. - 10. bekk er heimilt að taka spjaldtölvuna með sér heim að loknum skóladegi” 

Liður 9 bætist við aftast í annarri setningu “Ekki má setja í hana stolin forrit eða forrit sem breyta stýrikerfi þess.” og verður þá “Ekki má setja í hana stolin forrit eða forrit sem breyta stýrikerfi þess eða stillingum.”

Liður 10 breytist lítillega. Setningin “Þegar spjaldtölvunni er skilað í lok skólaárs ber nemandi ábyrgð á að vista persónuleg gögn annars staðar, þar sem spjaldtölvan verður  uppfærð og enduruppsett áður en hún er afhent á næsta skólaári og eyðast þá öll gögn af spjaldtölvunni”. verður “Þegar spjaldtölvunni er skilað í lok skólaárs ber nemandi ábyrgð á að vista persónuleg gögn annars staðar, þar sem spjaldtölvan getur verið uppfærð og enduruppsett áður en hún er afhent á næsta skólaári og eyðast þá öll gögn af spjaldtölvunni. 

Í lið 11 breytist ein setning. “Ef spjaldtölva er tilkynnt týnd eða stolin er starfsfólki Kópavogsbæjar heimilt, í samráði við nemanda eða foreldri/forráðamann að nýta Find my iPad til að staðsetja spjaldtölvuna. ” verður “Ef spjaldtölva er tilkynnt týnd eða stolin er starfsfólki Kópavogsbæjar heimilt að nýta Find my iPad til að staðsetja spjaldtölvuna”. 

Að síðustu breytast tvær setningar í lið 14. “Við útskrift úr grunnskóla er persónulegum skólaaðgangi nemanda að gögnum lokað eftir 3 mánuði og öllum gögnum þar inni eytt. Nemendur fá sendar leiðbeiningar um hvernig þeir geta breytt aðgangi sínum á Apple og iCloud til að varðveita persónuleg gögn og gert hann að persónulegum aðgangi til að varðveita þau” verður:

“Við útskrift úr grunnskóla er persónulegum skólaaðgangi nemanda að gögnum lokað eftir einn mánuð frá útskrift og öllum gögnum þar inni eytt. Nemendur leiðbeiningar um hvernig þeir geta breytt aðgangi sínum á Apple og iCloud til að varðveita persónuleg gögn og gert hann að persónulegum aðgangi til að varðveita þau”.

Skilmálana má finna í heild sinni á vefnum Snjallheimar.is https://spjaldtolvur.kopavogur.is/skilmalar/