Fréttir

Vorhátíð

Foreldrafélag Hörðuvallaskóla, í samstarfi við skólann, stendur fyrir vorhátíð miðvikudaginn 23.maí kl. 17:00. Hátíðin hefst á slaginu 17:00 með tónum frá skólahljómsveit Kópavogs. Í boði verða hoppukastalar (fleiri og stærri en áður), skólahreysti og veltibíll, fótbolti milli 10. bekkjar og kennara, grillaðar pylsur og djús, kökubasar til styrktar 10.bekkjarferðar (ekki tekið við kortum). Lokað verður inn á bílastæði starfsmanna við skólann, þar verður skólahreystibrautin. Hlökkum til að sjá sem flesta í sólskinsskapi Við lögðum allavega inn pöntun fyrir góðu veðri en annars er það bara regngallinn J Að lokum hvetjum við alla til að koma gangandi, því takmarkað er af bílastæðum
Lesa meira

Að flækjast í vefnum - fræðslufyrirlestur

Þriðjudaginn 15. maí kl. 20:00 verður fræðslufyrirlestur fyrir foreldra og starfsfólk um netfíkn í salnum í Baugakór. Það er Eyjólfur Örn Jónsson sálfræðingur sem sér um fyrirlesturinn en hann hefur farið með sambærileg erindi í marga skóla upp á síðkastið. Um er að ræða fyrirlestur um hættur netsins með sérstaka áherslu á svokallaða "netfíkn" en rannsóknir benda til að sirka 12% reglulegra netnotenda eigi á hættu að ánetjast notkun sinni. Börn og unglingar eru sérstaklega útsett fyrir þessum vanda og því mikilvægt að foreldrar skilji vandann og viti hvað best sé að gera í málinu. Nokkuð ljóst er að netið sé komið til að vera og því þýðir lítið að loka augunum fyrir því að þar geta leynst hættur eins og annarsstaðar. Við sendum börnin okkar ekki út í umferðina án þess að hafa kennt þeim umferðarreglurnar en við opnum oft heim netsins fyrir þeim án þess að skilja hann almennilega sjálf. Með réttri vitneskju og nálgun eiga allir að geta notið netsins og alls sem að það hefur upp á að bjóða án vandkvæða. Allir foreldrar eru boðnir velkomnir á fyrirlesturinn.
Lesa meira

Enn einn Íslandsmeistaratitilinn í skák!

Skáksveit Hörðuvallaskóla vann öruggan sigur á Íslandsmóti grunnskólasveita sem fram fór um síðastliðna helgi, í húsnæði Taflfélags Reykjavíkur. Sveitin hlaut 26½ vinning í 28 skákum og þetta er þriðji Íslandsmeistaratitill Hörðuvallaskóla á jafn mörgum árum. Skáksveit Íslandsmeistara Hörðuvallaskóla skipuðu: Vignir Vatnar Stefánsson, Stephan Briem, Arnar Milutin Heiðarsson, Sverrir Hákonarson, Benedikt Briem og Óskar Hákonarson. Það er því ljóst að sveit skólans er á leið á Norðurlandamót í Finnlandi í haust.
Lesa meira

Langt helgarfrí 18.-22. apríl

Við minnum á að dagana 18.-22. apríl er frí hjá nemendum en 18. og 20. apríl eru starfsdagar og fimmtudagurinn 21. apríl er sumardagurinn fyrsti. Dægradvöl er opin miðvikudaginn 18. apríl en lokuð föstudaginn 21. apríl. Við vekjum jafnframt athygli á dagskrá sumardagsins fyrsta í Kópavogi og barnamenningarhátíðar en þær upplýsingar má nálgast á slóðinni: https://www.kopavogur.is/static/files/Menningarhusin/Dagsskra_2018/barnamenning_2018/083kop_barmanenningarha-ti-d_13-vefutgafa.pdf
Lesa meira

Hvað einkennir góðan lesara?

Menntamálastofnun hefur gefið út veggspjald sem tíundar einkenni góðs lesara. Efni veggspjaldsins tengist framtíðaráherslum í útgefnu efni á vegum Menntamálastofnunar og læsisverkefnisins sem sett var á laggirnar í kjölfar Þjóðarsáttmála um læsi. Lesskilningstækni og lesskilningsaðferðir eru nauðsynleg viðfangsefni og mikilvægur þáttur í formlegri læsiskennslu svo læsi nemenda vaxi og dafni í takti við þroska, áhuga og kröfur sem nám gerir til þeirra. Á veggspjaldinu er lögð áhersla á að útskýra þá hæfni sem einkennir góðan lesara og sjálfsagt er að gera þessa hæfni að umræðuefni með nemendum svo þeir geti betur glöggvað sig á færninni sem gerir þá að góðum lesurum.
Lesa meira

Kópurinn - viðurkenningar menntaráðs Kópavogs

Menntaráð Kópavogs auglýsir hér með eftir tilnefningum til viðurkenninga fyrir framúrskarandi skólastarf í grunnskólum Kópavogs. Viðurkenningar verða veittar fyrir 3 – 5 verkefni sem stuðla að nýbreytni og framþróun innan skólanna. Með því er átt við nýjungar í skólastarfi eða þróunarverkefni sem fela í sér umbætur eða leiða til framfara í skólastarfi. Auk þess er æskilegt að verkefnið sýni: – að það hefur verið unnið af frumkvæði, fagmennsku og ábyrgð. – að það hafi leitt til umbóta og/eða framfara í skólastarfi. – að það feli í sér hvatningu til eftirbreytni innan viðkomandi skóla og utan. Skriflegar tilnefningar skulu berast rafrænt á sérstöku eyðublaði til grunnskóladeildar Kópavogs til hekla@kopavogur.is eigi síðar en 27. apríl 2018.
Lesa meira

Fréttabréf / matseðill aprílmánaðar

Fréttabréf / matseðil aprílmánaðar má nú nálgast hér á heimasíðunni. Smellið á fyrirsögnina..
Lesa meira

Skólahreysti - 5. sæti í riðlinum

Keppendur okkar í Skólahreysti stóðu sig með sóma og lentu í 5. sæti í sínum riðli en í honum kepptu 12 skólar. Það var Varmárskóli sem fór með sigur af hólmi í riðlinum, í öðru sæti varð Lindaskóli, Garðaskóli í þriðja sæti, Álfhólsskóli í fjórða og Hörðuvallaskóli í fimmta. Á myndinni má sjá liðið okkar sem var okkur sannarlega til sóma, þetta eru þau Telma, Óskar, Sverrir, Tryggvi Geir, Steinunn Silja og Thelma Rós.
Lesa meira

Ari Þröstur í 2. sæti í Pangea keppninni

Úrslit Pangea stærðfræðikeppninnar á Íslandi fóru fram þann 17. mars sl. Við í Hörðuvallaskóla áttum 8 keppendur í úrslitakeppninni sem var glæsilegur árangur hjá okkur fólki, en í úrslit komust 89 nemendur af landinu öllu. Að lokum fóru leikar þannig að einn af okkar nemendum náði verðlaunasæti en það var Ari Þröstur í 8. bekk sem hafnaði í öðru sæti í flokki 8. bekkjar nemenda. Innilega til hamingju með árangurinn!
Lesa meira

Átta nemendur Hörðuvallaskóla í úrslit Pangea stærðfræðikeppninnar

Við í Hörðuvallaskóla eigum 8 nemendur í úrslitum Pangea stærðfræðikeppninnar en það er alþjóðleg keppni sem nú er haldin í þriðja skiptið fyrir nemendur í 8.-9. bekkjum á Íslandi. Í þetta skiptið tóku þátt tæplega 2800 nemendur hérlendis, 89 þeirra komast í úrslitakeppnina og við eigum semsagt 8 af þeim. Nemendur okkar sem komust í úrslit eru Ari Þröstur Arnarsson, Arnar Freyr Tandrason og Ísleifur Arnórsson í 8. bekk og Atli Christian Pálsson, Hildur Lilja Ágústsdóttir, Ingimar Ólafsson, Sverrir Hákonarson og Vilmundur Máni Þrastarson úr 9. bekk. Glæsilegur árangur hjá okkar nemendum! Úrslitakeppnin verður haldin í Menntaskólanum við Hamrahlíð 17. mars nk. Í Pangeu er lögð áhersla á að auka áhuga þátttakenda á stærðfræði og allir eru hvattir til að taka þátt, bæði þeir sem eru vanir stærðfræðikeppnum á borð við Pangeu og líka þeir reynsluminni. Keppnin er þannig skipulögð að dæmin sem lögð eru fyrir eru mismunandi erfið. Með því er vonast til að allir fái að glíma við dæmi við sitt hæfi. Keppnin sjálf skiptist í þrennt og eru fyrstu tvær umferðirnar haldnar í grunnskólunum sjálfum. Þannig geta 8. og 9. bekkingar hvaðanæva af landinu skráð sig og tekið þátt óháð búsetu. Áhersla er lögð á að allir geti lært stærðfræði og notað hana til að skilja veröldina í kringum sig betur.
Lesa meira